KA-menn brutu ísinn í fyrri hálfleik þegar Elmar Dan skoraði fallegt mark á 38. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Á 65. mínútu seig á ógæfuhliðina hjá KA þegar Jón Heiðar Magnússon fékk sitt annað gula spjald og þar með brottvísun. Því var ljóst að síðasti stundarfjórðungurinn yrði KA-mönnum þungur í skauti. En þrátt fyrir mótlætið gáfu þeir gulu í og uppskáru annað mark á 77. mínútu þegar Davíð Rúnar Bjarnason kom boltanum yfir marklínuna eftir aukaspyrnu. Síðustu mínúturnar pressuðu Haukarnir síðan gríðarlega stíft og fengu dæmt víti á 89. mínútu, sem Hilmar Trausti Arnarsson skoraði úr. En þrátt fyrir harða hríð að marki KA á síðustu andartökum leiksins tókst heimamönnum ekki að jafna leikinn og niðurstaðan því kærkomin þrjú stig í sarpinn hjá KA, sem nú eru komnir með 17 stig og í 8. sætið.
Næstkomandi fimmtudag kl. 19.00 verður næsti leikur KA þegar liðið tekur á móti Þrótti R. Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur og því er algjör skyldumæting stuðningsmanna KA á Akureyrarvöll! Það er ljóst að í þeim leik verður Jón Heiðar Magnússon í banni og Elvar Páll Sigurðsson, Blikinn sem verið hefur að láni í herbúðum KA í sumar og staðið sig geyslega vel, er á förum vestur um haf til náms í Bandaríkjunum. Síðasti leikur Elvars Páls með KA var gegn Haukum í gær.