KA lauk Lengjubikarnum með sigri á Eyjamönnum í dag á Leiknisvelli í Breiðholtinu með tveimur mörkum gegn einu. Jóhann Helgason gerði
bæði mörk KA.
Byrjunarliðið var þannig skipað að í markinu var Sandor Matus, miðverðir voru Haukur Hinriksson og Gunnar Valur Gunnarsson, Kristján Freyr
Óðinsson var í hægri bakverði og Jakob Hafsteinsson vinstra megin. Á miðjunni voru Túfa, Davíð Rúnar Bjarnason og Jóhann
Helgason, á köntunum Hallgrímur Mar Steingrímsson og Ævar Ingi Jóhannesson og Elmar Dan Sigþórsson var fremstur.
Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Jóhann Helgason kom KA yfir á 26. mínútu leiksins og þannig stóðu
leikar í hálfleik. Eyjamenn komu sterkari til leiks í síðari hálfleik og uppskáru jöfnunarmark á 74. mínútu, en það
skoraði Aaron Spear. KA-menn lögðu þó ekki árar í bát og Jóhann Helgason tryggði sigurinn með öðru marki sínu og KA
á 85. mínútu.
Undir lok leiksins var pirraður Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson rekinn út af fyrir að sparka Kristján Frey niður.
Fjórum varamönnum var skipt inn á; Guðmundi Óla Steingrímssyni, Gunnari Örvari Stefánssyni, Jóni Heiðari Magnússyni og
Bjarka Baldvinssyni.
Tveir leikmenn voru á meiðslalistanum í dag - Brian Gilmour og Ómar Friðriksson.
Ljóst er að Jóhann Örn Sigurjónsson mun ekki spila á næstunni því krossband í öðru hné hans skaddaðist í
leik KA við ÍR í Boganum. Það er sannarlega skarð fyrir skildi að þessi ungi framherji geti ekki lagt sitt lóð á vogarskálarnar
í baráttunni í sumar.
KA endaði í 5. sæti riðilsins í Lengjubikarnum með 10 stig. Liðið sigraði Tindastól, ÍR og ÍBV og gerði jafntefli við
Víking R. Tapleikir voru gegn Skagamönnum, Keflavík og Stjörnunni. Sigur Skagamanna var öruggur en óhætt er að segja að tapið gegn
Stjörnunni var mjög óverðskuldað og jafntefli gegn Keflavík hefðu ekki verið ósanngjörn úrslit. Sem sagt; þrír sigrar,
þrjú töp og eitt jafntefli = 10 stig af 21 mögulegu.