Gríðarlega lærdómsríkt tímabil

Aci í leik gegn Leikni í sumar
Aci í leik gegn Leikni í sumar
Fyrirliði 2.flokks, Aksentije Milisic, tyllti sér fyrir framan tölvunna og fór ítarlega í tímabilið hjá 2.flokki í sumar

Tímabilið hjá okkur í 2.flokknum var virkilega skemmtilegt og áhugavert en að lokum enduðum við í 7.sæti í 10 liða deild. Margt spilað inn í hjá okkur í sumar en oftar en ekki urðu lykilmenn meiddir en við áttum í miklum vandræðum með markmenn í sumar og voru allt að 4 markmenn í búrinu hjá okkur.

Einnig tók það oftar en ekki verulega á að fara suður og spila 2 leiki á 2 dögum, en þar er eitthvað sem við vorum svosem orðnir vanir.  Við vorum með mjög ungt lið, flestir 95 sem voru á yngsta ári í 2.flokki og fullyrði ég að við vorum með eitt yngsta lið landsins. Miló tók okkur vel í gegn í vetur og kom okkur í gott form fyrir sumarið og svo kom Steini og varð aðstoðarþjálfari eftir áramót. Undirbúningstímabilið gekk svona upp og ofan en í lok vors gerum við góða ferð suður sem gaf mönnum sjálfstraust fyrir íslandsmótið.


Loksins kom fyrsti leikur en tímabilið byrjaði alls ekki eins og við vildum, eftir 3 leiki vorum við aðeins búnir að skora eitt mark og vorum með eitt stig. En síðan kom leikur gegn Val heima og þar náðum við loksins að sýna okkar rétta andlit, 2-2 jafntefli í leik sem við vorum mun betri aðilinn og manni færri með engan framherja í einhverjar 70 mínútur. Engu að síður var það staðreynd að við vorum með 2 stig eftir 5 leiki, sem var enganveginn ásættanlegt.


  

En svo var komið að eftirminnilegum leik sem breytti miklu fyrir okkur í sumar, bæði andanum í liðinu og það að hafa trú á verkefninu, en við mættum í breiðholtið í heimsókn til ÍR sem þá var í efsta sæti en við í því neðsta. Til að gera langa sögu stutta slátruðum við þeim 0-3, ekki nóg með það heldur ákvað Kristján Freyr Óðinsson að henda í tvö mörk, hver hefði spáð þessu öllu þegar leikurinn var að fara byrja. Eftir þennan leik fór varnarleikurinn að virka betur, 1 mark á okkur í næstu 3 leikjum og ástandið var farið að líta betur út. Við náðum loksins að vinna á Akureyrarvelli þar sem Bjarni ,,Mark“  Duffield náði að standa undir nafni loksins og náði að skora, og það með hægri, og þá áttuðum við okkur á því að allt gat gerst í sumar. Engu að síður vorum við áfram í neðrihluta deildarinnar og fengum við rothögg á okkur í útleik gegn Þrótti þar sem við fengum mark í andlitið á 98 mínútu sirka og fórum tómhentir heim.



Mótið var hálfnað, við vorum í 8.sæti og á þessum tímapunkti var Kristján, sem hafði áður ekki getið sér gott orð fyrir framan markið, lang markahæsti leikmaður liðsins með 6 mörk, næsti kom með 2 en sem betur fer áttu þessir hlutir eftir að breytast í seinni hluta móts. Baldur Jónsson kom svo vel inn í liðið í glugganum í júlí.

 Næst komu tveir leikir gegn ÍBV og í þeim fyrri slógum við líklegast eitthvað met, en við vorum grínlaust 4-0 undir eftir 15 mínútna leik en þó fengum við nóg af færum til að jafna leikinn og þótt skrítið sé að segja gat staðan verið jöfn, en það endaði í 5-2 tapi. Daginn eftir mættum við þeim aftur en þá þurftum við lífsnauðsynlega sigur, við fengum góða ræðu frá þjálfurunum fyrir leik, en svo lentum við 1-0 eftir 3.mínútur og voru menn farnir að hugsa sig um hvort sama kjaftæðið væri að endurtaka sig eins og daginn áður, einnig heyrum við þjálfara ÍBV kalla ,,come on boys, more goals“, en þá hafi hann haldið að þeir myndu fara létt með okkur og bæta markatöluna sína enn frekar, en við ákváðum að troða því upp í þá og sigruðum gríðarlega sætan 3-2 sigur og náðum að sýna það að fyrri leikurinn var slys. Síðan komu leikir þar sem við náðum stigum hér og þar en eftirminnilegt atvik gerðist á Hlíðarenda þegar Gunnar Örvar á skalla sem snertir nánast netið áður en þeirra maður hreinsar burt, en hlægjandi línuvörðurinn né dómarinn sáu ekki að boltinn fór inn og var mikill hiti í mönnum þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik þar og í lok leiks ákvað Egill ,,sjónvarpsvarsla“ Sigfússon markmaður að stjaka örlítið við dómaranum og láta nokkur vel valið orð falla í leiðinni og var honum hent beint í sturtu, ekki í fyrsta skipti á ferlinum.
              

En núna var komið að stærsta leik sumarsins, við fórum austur til Reyðarfjarðar í algjöran fallbaráttuslag við strákana úr Fjarðabyggð. Á þessum tímapunkti var Fannar Hafsteinsson meiddur, Egill í banni, Aron úti í útlöndum og við þurftum að kalla á Heimir Sigurðsson til að koma í markið, frekar riðgaður eftir langt frí frá fótbolta. Við fórum austur og náðum í eina af sætustu 3 punktunum þetta sumarið, 0-1 sigur í gríðarlegur roki þar sem Heimir stóð sig óaðfinnanlega vel í markinu en hann greip allt sem á markið kom og henti í clean sheet og sýndi að hann hefur þetta ennþá í sér. Markið sem við skoruðum var einnig líklega það ljótasta á tímabilinu en það taldi svo sannarlega og rúmlega það. Við enduðum síðan tímabilið á því að gera jafntefli við Selfoss þar sem við misstum niður unnin leik en drápum þar nokkurnveginn á sama tíma vonir þeirra um að fara upp um deild. Í lokinn unnum við síðan 4-1 sigur á Leikni og enduðum eins og áður segir í 7.sæti.



Gríðarlega skemmtilegu og lærdómsmiklu tímabili lokið og fullt af góðum hlutum sem voru í gangi hjá liðinu í allt sumar og margt sem hægt er að læra af og bæta. Þess má einnig til gamans geta að Miló fór í gegnum tímabilið án þess að fá rautt spjald, sem er samkvæmt mínum kortabókum persónulegt met, þó gulu létu auðvitað sjá sig hér og þar. En lokahófið hefur ekki ennþá verið haldið, en það verður haldi með prompi og prakt eftir rúmlega viku og viðurkenningar veittar.


Kær kveðja, fyrirliði 2.flokks KA,
Aksentije Milisic.