Annar flokkur KA spilar gríðarlega mikilvægan leik í 2. flokki kk á Akureyrarvelli nk. föstudag, 16. september, kl. 17 þegar hann tekur á móti Fjölni/Birninum. Með einu stigi úr þessum leik hafa KA-strákar tryggt sæti í A-deildinni að ári.
KA-menn hafa nú 19 stig í A-deildinni þegar tveir leikir eru eftir. Andstæðingarnir, Fjölnir/Björninn, eru með 15 stig í næstneðsta sæti deildarinnar og eiga sömuleiðis eftir tvo leiki - við KA á föstudag og botnliðið Val í síðustu umferðinni. Tap fyrir Fjölni/Birninum nk. föstudag gæti þýtt að nk. þriðjudag yrði hreinn úrslitaleikur á Þórsvelli milli Þórs og KA um að halda sæti í A-deildinni því Þór á nú bara þennan eina "Derby-slag" eftir og er nú með 16 stig - þremur stigum frá KA.
Við skorum á alla harða KA-menn að fjölmenna á Akureyrarvöll á föstudag kl. 16 og öskra KA-menn til sigurs - sem fyrr segir tryggir sigur eða jafntefli liðið í A-deildinni á næsta keppnistímabili, en það er alveg ljóst að Fjölnir/Björninn mun leggja gríðarlega upp úr því að sigra leikinn, því með þremur stigum yrðu Fjölnismenn í kjörstöðu til þess að halda sæti sínu í deildinni.