Guðjón Þórðarson í viðræðum við KA (Uppfært)

Guðjón með bikarinn árið 1989.
Guðjón með bikarinn árið 1989.
Uppfært: Samkvæmt nýjustu fréttum hefur Guðjón Þórðarson tekið við BÍ/Bolungarvík eftir að hafa átt í viðræðum við KA. Eins og við greindum frá í gær voru viðræður við Guðjón um helgina og var honum gefið tilboð í gærkvöldi sem hann ákvað svo að hafna í morgun.

Upphaflega fréttin, birt þriðjudaginn 5. október 12:57

Hinn 55 ára gamli þjálfari, Guðjón Þórðarson, á í viðræðum við KA um að taka við þjálfun liðsins en þetta staðfesti Bjarni Áskelsson formaður knattspyrnudeildar við heimasíðuna í dag.

Bjarni sagði að áhugi sé fyrir hendi hjá knattspyrnudeildinni um að fá Guðjón til starfa og stefnt sé að því að ræða frekar við Guðjón áfram og vonandi skýrast málin á næstu dögum.

,,Við hittum Guðjón um helgina og ræddum lengi við hann. Hann hefur áhuga og vonandi skýrast málin á næstu dögum," sagði Bjarni í samtali við heimasíðuna í dag.

Eins og komið hefur fram ákvað Dean Martin að framlengja ekki samnings sinn við KA en hann flutti sig yfir til ÍA. Liðið hefur því verið þálfaralaust undanfarnar vikur.

Guðjón ætti að vera flestum KA-mönnum kunnur en árið 1989 var hann þjálfari liðsins þegar KA vann sinn eina Íslandsmeistaratitil til þessa.

Síðan þá hefur Guðjón unnið þrjá Íslandsmeistaratitla til viðbótar og fjóra bikarmeistaratitla, auk þess að hafa komið Stoke City upp um deild í byrjun aldarinnar.

Á ferli sínum hefur hann þjálfað ÍA, KA, KR, íslenska landsliðið og náð góðum árangi þar, Stoke, Start í Noregi, Barnsley, Keflavík, Notts County og svo nú síðast Crewe Alexandra þar sem hann var rekinn 2. október 2009.