Gunnlaugur Jónsson, sem verið hefur þjálfari mfl. KA undangengin tvö keppnistímabil, stýrði liðinu í síðasta skipti á Ísafirði í gær gegn BÍ/Bolungarvík. Í lokahófi knattspyrnudeildar í gærkvöld var greint frá því að það sé sameiginleg ákvörðun stjórnar knattspyrnudeildar og Gulla að hann hætti sem þjálfari KA eftir tveggja ára farsælt samstarf.
Samningur Gunnlaugs við KA var bindandi í tvö ár með möguleika á árs framlengingu. „Eftir að við Gulli fórum yfir sviðið var það okkar sameiginlega niðurstaða að leiðir skildu núna. Ástæðan er fjölskylduaðstæður Gulla. Fjölskylda hans er í Reykjavík og til lengdar er mjög erfitt að halda bæði heimili syðra og á Akureyri. Við höfum fullan skilning á þessari erfiðu stöðu og því varð þetta niðurstaðan. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Gulla af heilum hug fyrir hans góða starf hjá okkur í KA undanfarin tvö ár og fyrir hönd félagsins vil ég óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar í leik og starfi í framtíðinni,“ segir Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA.
„Þessi tvö ár í þjálfun
hjá KA hefur verið mjög ánægjulegur en jafnframt krefjandi tími.
Þegar horft er til baka tel ég að ég geti verið sáttur og stoltur af mínu starfi hjá félaginu.
KA-liðið tók skref upp á við í ár
miðað við síðasta keppnistímabil og það má segja að herslumuninn hafi vantað til þess að við gætum gert alvöru
atlögu í ár að úrvalsdeildarsætinu. Það sem fyrst og fremst setti strik í reikninginn með möguleikann á
úrvalsdeildasæti var annars vegar slakur árangur okkar í leikjum gegn liðum í neðri hluta deildarinnar og hins vegar byrjuðum við mótið
í ár ekki nógu vel. Þetta tvennt gerði gæfumuninn þegar upp er staðið. Við hefðum viljað halda þriðja sætinu, en misstum
Þrótt uppfyrir okkur í síðustu umferðinni á markamun.
Samstarf mitt og stjórnar knattspyrnudeildar KA, hefur verið mjög gott í þessi tvö ár og fyrir það vil
ég þakka. Félaginu óska ég alls hins besta í framtíðinni,“ segir Gunnlaugur Jónsson, fráfarandi þjálfari mfl. kk
í KA.