KA sigraði ÍR 5-1 sl. laugardag með frábærum leik og ætla Gulli og hans menn að byggja ofan á góða leiki að undanförnu og segir stemninguna góða í hópnum
"Það hefur verið ágætis stígandi í liðinu frá Haukaleiknum, stöðugri heildarbragur og fyrir vikið er auðvitað meiri stemning í liðinu. Nú er að byggja ofan á það. Stöðugleikinn er nú samt ekki meiri en svo að við höfum enn ekki unnið 2 leiki í röð í deildinni. Ef við ætlum okkur að stimpla okkur inn í toppbaráttuna, þá verðum við einfaldlega að spila til sigurs gegn Leikni," sagði Gulli
Leiknisliðið hefur verið í töluverðum vandræðum frá því tímabilið hófst og situr í næst neðsta sæti eftir 5-1 tap gegn nágrönnum okkar í síðasta leik og því býst Gulli við Leikismönnum mjög grimmum
"Ég býst við þeim mjög grimmum, Leiknir er með gott lið en menn eru ósáttir við gengi þess til þessa. Leiknir er með mjög reyndan þjálfara sem hefur upplifað allt í íslenskum fótbolta og það er ljóst við fáum ekkert gefins á móti þeim. Við skulum muna það líka að þegar við mættum Leikni í fyrra í 12. umferð þá var staða þeirra mjög slæm, þeir höfðu 4 stig en voru án sigurs og höfðu tapað 6 leikjum í röð en unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn okkur. Það á að vera okkur víti til varnaðar og það hjálpar okkur ekkert að þeir töpuðu stórt í síðustu umferð, þeir eru með bakið upp við vegg og koma eins og grenjandi ljón. Menn þurfa einfaldlega að vera á tánum og tilbúnir í slaginn," Sagði Gulli um Leiknisliðið.
Frammistaða hins knáa húsvíkings Bjarka Baldvinssonar hefur vakið mikla athygli í síðustu leikjum en þessi fíngerði miðjumaður hefur verið með bestu mönnum liðsins og barist eins og grimmt ljón en hann hefur leyst stöðu fremsta miðjumanns í fjarveru Jóhanns Helgasonar sem er nú að snúa til baka en Gulli vildi ekki gefa það upp hvort Bjarki héldi sínu sæti en er mjög ánægður með hans vinnu í síðustu leikjum.
"Ég gef ekki út byrjunarliðið á netinu fyrir leik, strákarnir fá fyrst að vita hvernig ég stilli upp. Bjarki hefur verið að stíga upp og verið mjög góður, hann var sérstaklega ógnandi og vann frábæra varnarvinnu gegn ÍR og vonandi verður framhald á. Það er mikið ánægjuefni að Jóhann sé að ná heilsu og hann verður mikill styrkur fyrir liðið í seinni umferðinni," segir Gulli
Leikmannaglugginn er opinn eins og margir vita og eru KA menn við það að fá vinstri bakvörðinn Sigurjón Guðmundsson, sem er fæddur 1992 og kemur af Skaganum. Þar lék hann leiki með ÍA í 1.deild í fyrra. Hann mætti á sína fyrstu æfingu í gær og líkaði Gulla það sem fyrir augun bar
"Sigurjón stóð sig vel á æfingu í gær. Hann mun æfa með okkur út þessa viku. Við setjumst svo niður með honum með það að markmiði að gera samnging við hann. Sigurjón er að upplagi miðjumaður en hefur verið vinstri bakvörður hjá ÍA undanfarin ár, hann leysti þá stöðu mjög vel í lok tímabilsins m.a. í leiknum gegn okkur. Hann meiddist svo illa í janúar og byrjaði ekki aftur að æfa fyrr en í byrjun sumars. Nú er hann heill, hefur æft með ÍA og spilað nokkra leiki með Kára í þriðju deildinni. Hann hefur svo nám í Háskólanum á Akureyri í haust og verður vonandi einnig leikmaður KA í seinni umferðinni," sagði Gulli um títtnefndan Sigurjón
Bakvarðastöðurnar hafa verið á milli tannanna á fólki undanfarnar vikur en okkar sterkasti bakvörður Darren Lough verður í banni á morgun vegna 4 gula spjaldra og telur Gulli að þeir muni leysa það má vel og mun treysta á ungu strákana.
"Við munum leysa það vel, það eru strákar sem bíða tækifærisins og verða klárir þegar kallið kemur," segir Gulli.
Eins og fyrr segir eru aðeins 6 stig í toppsætið og ætlar Gulli að reyna að blanda sér í toppbaráttuna eins og hann lýsti yfir fyrir tímabilið.
"Við gáfum það út að við ætluðum að taka þátt í toppbaráttu fyrir tímabil. Vissulega var byrjunin á mótinu hjá okkur slakari en við stefndum að en í undanförnum leikjum höfum við sýnt betri leik, deildin er kannski jafnari en menn bjuggust við og því eru enn möguleikar fyrir hendi að stimpla sig inn í toppbaráttuna," segir Gulli
Það hefur verið höfuðverkur fyrir Gulla að menn hafa hreinlega hrunið í meiðsli hver á fætur öðrum og er það endanlega ljóst að Elmar Dan og Þórður Arnar muni ekki spila meira á tímabilinu en Gulli er ánægður með karakterinn sem menn sýndu við þessi áföll.
"Við höfum lent í miklum áföllum að undanförnu en það eru góðar fréttir að Jói Helga, Tufa og Ævar eru byrjaðir að æfa að nýju, því miður var Ómar sparkaður að nýju í meiðsli gegn BÍ/Bolungarvík og 1-2 vikur þangað til hann kemur til baka. Svo er endanlega ljóst að Elmar Dan og Þórður Arnar verða ekkert meira með það sem eftir er af tímabilinu. Hópurinn sýndi mikinn karakter og styrk þegar þessi áföll dundu yfir og liðið er því sterkara fyrir vikið," sagði Gulli að lokum
Leikurinn hefst klukkan 18:30 á morgun, föstudag og hvetjum við alla til að mæta á völlinn!