Gunnar Gunnarsson hættir sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar

Gassi ánægður með aflann þegar meistaraflokkur fór í sjóstöng í sumar.
Gassi ánægður með aflann þegar meistaraflokkur fór í sjóstöng í sumar.
Knattspyrnudeild KA og Gunnar Gunnarsson (Gassi) hafa komist að samkomulagi um að hann láti af  starfi framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar KA, en því hefur hann gegnt meira og minna undangengin níu ár.

“Ég hef átt afar ánægjuleg ár hjá KA og á þessum tímamótum er mér efst í huga óendanlegt þakklæti til félagsins fyrir þann tíma sem ég hef starfað fyrir það og jafnframt vil ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef starfað með þessi ár. Þetta hefur verið mér góður og lærdómsríkur tími. KA óska ég alls hins besta í framtíðinni,”
segir Gassi.

“Gassi hefur unnið frábært starf fyrir knattspyrnudeild KA og félagið í heild og það verður seint fullþakkað. Hann hefur gríðarlega yfirgripsmikla þekkingu á þeim málum sem hann hefur unnið að undanfarin ár og skarð hans verður vandfyllt. Raunar er Gassi ekki alveg horfinn á braut því hann mun leggja okkur lið við þau verkefni sem nú bíða. Þegar þar að kemur fylgja Gassa miklar og góðar óskir um farsæld í öllum þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur,” segir Bjarni Áskelsson, formaður knattspyrnudeildar KA.