Varnarmaðurinn Gunnar Valur Gunnarsson, sem hefur síðustu ár verið fyrirliði Fjölnis í Grafarvogi, hefur ákveðið að ganga til liðs við KA og spila með félaginu næstu tvö ár. Samkomulag þess efnis var staðfest í dag.
Gunnar Valur er Akureyringur í húð og hár, fæddur árið 1982. Hann æfði og spilaði með KA frá og með 5. flokki og á því sannarlega rætur í KA. Hann spilaði hins vegar aldrei með meistaraflokki félagsins og hafði félagaskipti árið 2003 í Fjölni, þar sem hann hefur spilað allar götur síðan og á þar að baki 188 meistaraflokksleiki í deild og bikar og skoraði í þeim sjö mörk – þar af þrjú í 24 leikjum á liðnu keppnistímabili. Gunnar Valur hefur verið fyrirliði Fjölnis fjögur keppnistímabil – árin 2005, 2006, 2010 og 2011.
„Mig hefur lengi dreymt um að spila fyrir mitt gamla félag, enda náði ég aldrei á sínum tíma að spila í meistaraflokki KA. Ég tel að nú sé rétti tíminn til að halda á fornar slóðir,“ segir Gunnar Valur, en núgildandi samningur hans við Fjölni rennur út um næstu mánaðamót. „Ég hef alltaf fylgst úr fjarlægð með gangi mála hjá KA, enda eru margir af mínum gömlu og góðu félögum grjótharðir KA-menn. Þeir hafa verið iðnir við að selja mér þá hugmynd að spila fyrir mitt gamla félag og ég keypti að lokum hugmyndina og hlakka til þess að takast á við þetta verkefni,“ segir Gunnar Valur.
Gunnar Valur er með gríðarlega reynslu, enda búinn að spila tæplega 190 meistaraflokksleiki, sem fyrr segir. Hann spilaði eitt tímabil með Fjölni í 2. deildinni, sex tímabil í 1. deild og tvö tímabil í efstu deild. Þá hefur hann spilað tvo úrslitaleiki í bikarkeppninni. Þetta þýðir með öðrum orðum að hann hefur góða reynslu af því að fara upp um deild með liði sínu – úr 2. deild upp í 1. deild og úr 1. deildinni upp í þá efstu.
„Þetta er hreint ekki flókið. Á sínum tíma fór ég úr gulri KA-treyjunni í gula Fjölnistreyju og nú snýst dæmið við. Félagar mínir í KA sögðu við mig þegar þeir reyndu að selja mér þá hugmynd að koma til KA að þetta væri ekkert mál, það eina sem þyrfti að gera væri að skipta um auglýsingu á treyjunni,“ segir Gunnar Valur og hlær. Hann bætir því við að framundan sé skemmtileg barátta í 1. deildinni. „Mér líst mjög vel á framhaldið. KA er að styrkja sinn hóp eins og liðin eru almennt að gera. Það er nú einu sinni svo að tíu af tólf liðum ætla sér upp um deild og því verður ekkert gefið eftir. En það sem er lykilatriði í þessu er að mínu mati að ná upp sterkri og góðri liðsheild, fyrsta deildin snýst meira en margt annað um stemningu. Þetta verður skemmtilegt, en ég er ekki kominn í KA til þess að vera í einhverju miðjuhnoði,“ segir Gunnar Valur, sem hefur alla tíð spilað í varnarlínunni – oftast sem bakvörður en undanfarin ár sem miðvörður. „Ég hef sagt við þjálfarana að ég sé efnilegur sóknarmaður, en mér hefur ekki ennþá tekist að sannfæra þá. Það hlýtur að koma að því. Ég reyni í það minnsta að selja Gulla þá hugmynd að setja mig á toppinn. Hvað út úr því kemur á eftir að koma í ljós,“ segir nýjasti liðsmaður KA, Gunnar Valur Gunnarsson.
„Það er algjörlega frábært að Gunnar Valur hafi ákveðið að spila með uppeldisfélagi sínu. Við erum að fá afar traustan varnarmann sem hefur verið mjög stöðugur í sínum leik og hreinlega vanmetinn í mörg ár. Hann hefur tekið þátt í ævintýrinu í Grafarvogi frá því árið 2003 þegar Fjölnir var í 2. deild, og farið upp um tvær deildir og verið fyrirliði liðsins meginhluta tímans. Það er afar mikilvægt að endurheimta leikmann sem er uppalinn í félaginu og hann mun verða góð fyrirmynd fyrir okkar ungu leikmenn,” segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA.