Á laugardaginn hefst undirbúningstímabilið fyrir einhverri alvöru hjá meistaraflokki félagsins þegar að Soccerademótið byrjar. Heimasíðan ákvað þess vegna að heyra í Gunnlaugi þjálfara liðsins og hvað hann hafði að segja um liðið á þessum tímapunkti.
Þegar Gunnlaugur var spurður um hvernig
honum líkaði við að vera á Akureyri var hann mjög jákvæður. „Mér líkar bara mjög vel hérna, ég hef fengið frábærar móttökur og finn fyrir miklum
velvilja hjá öllum í félaginu. Þetta verður bara mjög spennandi. Ég er einnig mjög ánægður með teymið mitt, Ingvar
aðstoðarþjálfari kemur sterkur inn sem og Rúnar styrktarþjálfari, við náum orðið mjög vel saman þrátt fyrir að stutt
sé síðan þeir komu inn. Svo er Doktor Petar að vinna starf sem ég efast um að finnist hjá neinum klúbb hér á
landi.“
Gunnlaugur hefur þjálfað liðið liðið í tvo mánuði sem hann hefur notað til að sjá hvað hann hefur í
höndunum. „Mér líst vel á hópinn, ég hef notað tímann fyrir áramót til að kynnast hópnum og
nú má segja að ég geri mér nokkurn veginn grein fyrir hvernig hóp ég er með í höndunum. Ég mun halda áfram að
skoða mannskapinn út janúar/Soccerade mótið. Við teflum fram tveimur liðum í því móti sem gefur okkur færi að skoða
fleiri leikmenn. Ég reikna með að fækka í hópnum fyrir Deildarbikar sem byrjar um miðjan febrúar mánuð.“
Eins og áður kom fram þá byrjar Soccerademótið á laugardaginn og er það eins og Gunnlaugur sagði gott mót fyrir
þjálfara til að gefa leikmönnum tækifæri til að sanna sig.
„Markmið fram að fyrsta deildarleik er að liðið sé að bæta sig milli leikja. Ég er alinn upp við það að fara í hvern einasta leik með því hugarfari að vinna hann og það breytist ekkert hér fyrir norðan. En Soccerate mótið stendur ekki og fellur með hvernig liðið verður í sumar. Það er mikilvægast að það sé stígandi í leik liðsins fram að fyrsta leik í Maí. Ég mun gera tilraunir í þessu móti og ég er mjög spenntur að geta telft fram tveimur liðum, við erum með stóran hóp af leikmönnum sem eru tilbúnir að sanna sig,“ sagði Gunnlaugur þegar hann var spurður um markmið sín fyrir Soccerademótið.
„Við höfum augun opin og ég stefni að bæta við mig sóknarmanni. Svo verður að koma í ljós á næstu tveimur mánuðum hvort við þurfum meiri styrkingu. Það eru kannski ekki nýjar fréttir að það gengur illa að fá leikmenn að sunnan þannig að það verður að koma í ljós hvar við fáum þessa styrkingu,“ sagði Gunnlaugur að lokum þegar hann var spurður hvort hann stefndi á að styrkja liðið með nýjum leikmönnum.