KA endaði tímabilið í 8. sæti 1. deildar og er Gunnlaugur Jónsson þjálfari sáttur með seinni umferðina en KA var með þriðja besta árangur allra liða í seinni umferð. “Ég er mjög sáttur við stígandann í liðinu, í seinni umferðinni er liðið með þriðja besta árangur í deildinni, aðeins toppliðin tvö, ÍA og Selfoss, eru með betri árangur. Við byrjum mótið mjög vel en frá og með 4. umferð kom mikil lægð þar sem aðeins vannst einn sigur í 9 leikjum,” sagði Gunnlaugur í samtali við ka-sport.is.
Um miðja fyrstu umferð lenti liðið í vandræðum þegar Andrés Vilhjálmsson datt út vegna meiðsla og Guðmundur Óli var frá í 6 vikur, þá var Túfa enn á sjúkralista og útlitið því nokkuð dökkt. “Við máttum illa við að missa Andrés Vilhjálms og Guðmund Óla í meiðsli í Selfossleiknum og það var ekki mikil reynsla eftir í liðinu. En við fengum frábæran liðsstyrk í glugganum, Elmar Dan kom sterkur inn frá Noregi, Tufa kom gríðarlega einbeittur til leiks eftir 5 mánaða meiðsli og síðast en ekki síst fengum við Brian Gilmour inn með mikil gæði inn á miðjuna. Við vorum reyndar niðurlægðir á Akranesi, en liðið svaraði því mjög vel í lokaleiknum með sannfærandi sigri á BÍ/Bolungarvík."
Í fyrra lauk liðið leik í 9. sæti en í ár endaði það í 8. sæti, sem fyrr segir. Þetta var fyrsta tímabil Gulla með KA-liðið. “Markmiðið var að ná stöðugleika og reyna að forðast botnbaráttu, það náðist ekki því miður en við unnum okkur sannfærandi út úr þeim vandræðum."
Nú eru spennandi tímar í vændum,þykirörgum, félagskiptaglugginn. Gulli er aðeins farinn að líta yfir mannskapinn og skoða hvar þarf að bæta við. Þá mun hann reyna að halda þeim Dan Howell og Brian Gilmour og leggur sérstaka áherlsu á að halda Brian. “Við erum farnir að huga að þeim og ýmislegt sem við erum að skoða,” sagði Gulli aðspurður út í hvort hann væri farinn að líta yfir mannskapinn. “Það fengu margir strákar frá okkur ómetanlega reynslu í ár og þeir geta komið enn sterkari á næsta tímabili. Við erum skoða hvað við getum gert í að styrkja liðið og vonandi ganga þær pælingar upp.”
Gulli mun halda áfram með liðið og setur stefnuna að sjálfsögðu hærra fyrir næsta tímabil. “Að sjálfsögðu stefnum við að því að vera með lið sem getur tekið næsta skref á næsta ári.”