“Þessi leikur sýndi þrjár hliðar á okkar liði, við byrjum frábærlega, erum einbeittir og klárir í slaginn og komumst yfir eftir 90 sekúndur, við fylgjum því vel eftir og sköpum strax tvö góð tækifæri. Þá ákváðum við að hætta að hafa fyrir hlutunum og litum vægast sagt illa út. HK fékk trú á verkefnið og var yfir 3-1 sanngjarnt í hálfleik. En í seinni hálfleik sýndum við okkar rétta andlit og fórum að vinna tæklingar, skallaeinvígi og unnum hlutina saman. Það var gríðarlega flottur karakter að snúa þessu tafli við og skora 3 mörk. Ég vona að við lærum þá lexíu af þessum leik að í þessari deild þýðir ekkert að ætla sér að fara létt í gegnum leikina, þá verður þér refsað,” sagði Gunnlaugur eftir leikinn
Eftir að hafa komist 1-0 yfir snemma leiks má segja að leikur liðsins hafi hrunið og 3 mörk komu í kjölfarið frá HK, Sir Alex tók hárblásarann en hvað sagði Gulli í hálfleik? “Það var eitt og annað en aðallega að menn ættu að vinna saman sem lið og fara að vinna þá "basic" vinnu sem þarf til að vinna fótboltaleiki. Ég fór reyndar vítt um sviðið enda langt síðan ég hef verið svona reiður.”
Hálfleiksræða Gulla virkaði því annað KA-lið mætti í kjölfarið til baka í seinni hálfleikinn og hörfuðu HK-ingarnir svolítið til baka. “Eftir að við náðum fyrsta marki seinni hálfleiks féllu HK-ingar til baka og urðu hræddir við að missa forskotið. Við vorum bara miklu einbeittari og gerðum hlutina einfaldari. HK fékk engu að síður færi til að bæta við forskotið og að jafna þegar við komumst yfir og þá var Sandor heldur betur á tánum. Svo ber að hrósa ungu strákunum, Jakobi, Davíð Erni og Ómari sem komu gríðarlega einbeittir inn á og stóðu sig vel.“
KA er sem stendur í 2. sæti deildarinnar en var spáð því 9., en það er mikið eftir og Gulli heldur sig við þau markmið sem sett voru í byrjun. “Ég sagði fyrir mót að okkar markmið væri að gera betur en í fyrra og hífa liðið upp töfluna. Það hefur ekkert breyst. “