Hagnaður af rekstri knattspyrnudeildar árið 2010

Á fundinum í gær
Á fundinum í gær
Rekstur knattspyrnudeildar KA skilaði rösklega sjö hundruð þúsund króna hagnaði á liðnu starfsári. Þetta kom fram á aðalfundi knattspyrnudeildar KA, sem var haldinn í gærkvöld. 


Í skýrslu Bjarna Áskelssonar, formanns stjórnar knattspyrnudeildarinnar, til aðalfundarins kom fram að afar mikilvægt væri að halda rekstri deildarinnar réttum megin við strikið, en til þess að það mætti takast hefðu fjölmargir lagt hönd á plóg og þakkaði hann öllum sem hefðu komið að rekstri knattspyrnudeildarinnar á einn eða annan hátt fyrir mikla og góða vinnu.  
Bjarni sagði að sem fyrr hafi N1-mótið verið lang viðamesta verkefni knattspyrnudeildar KA og hafi mótið síðastliðið sumar verið það stærsta frá upphafi. Í ár verður 25. N1-mótið haldið á KA-svæðinu. Í þessu sambandi upplýsti Bjarni að samningur knattspyrnudeildar KA og N1 hafi nú verið endurnýjaður til næstu fimm ára, en samningurinn felur í sér stuðning við N1-mótið og jafnframt verður N1 aðalstyrktaraðili meistaraflokks og 2. flokks á samningstímanum.
Bjarni sagði að starf  yngri flokka félgsins hafi sem fyrr verið öflugt og metnaðarfullt, undir styrkri stjórn yngriflokkaráðs og þakkaði hann bæði ráðsfólki og þjálfurum fyrir þeirra störf og mikinn metnað.
Að loknu síðasta keppnistímabili lét Dean Martin, Dínó, af störfum, sem þjálfari meistaraflokks þegar þriggja ára samningur hans rann út. „Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Dínó og Steingrími Erni Eiðssyni, aðstoðarþjálfara meistaraflokks, fyrir mjög gott starf undanfarin ár. Krafta Steina Eiðs njótum við áfram sem þjálfara í yngri flokkum félagsins,“ sagði Bjarni.
„Gunnlaugur Jónsson var ráðinn þjálfari meistaraflokks KA sl. haust og er samningur hans til tveggja ára. Aðstoðarþjálfari var ráðinn Ingvar Már Gíslason, sem þekkir innviði knattspyrnunnar í KA vel, bæði sem leikmaður á sínum yngri árum og síðar stjórnarmaður. Eru þeir báðir boðnir velkomnir til starfa og væntum við mikils af störfum þeirra.
Gunnar Gunnarsson, Gassi, sem hefur verið samofinn starfi knattspyrnudeildar KA í mörg undanfarin ár og stýrt N1-mótinu frábærlega, ákvað á haustdögum að söðla um og flytja sig suður yfir heiðar þar sem hann starfar nú hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Eru honum færðar bestu óskir um farsæld í starfi hjá FH um leið og öll hans miklu og góðu störf í þágu KA í öll þessi ár sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar og stjórnarmaður eru þökkuð af heilum hug. Við starfi hans tók Óskar Þór Halldórsson þann 1. febrúar síðastliðinn og mun hann koma að starfi allra flokka hjá félaginu, frá áttunda flokki og upp í meistaraflokk. Býð ég Óskar Þór velkominn til starfa,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagði það hafa komið berlega í ljós síðastliðið sumar að KA-svæðið væri orðið ofsetið, það þyldi ekki ekki átroðning vel á fimmta hundrað iðkenda, sérstaklega í langvarandi bleytutíð. Margoft hafi af þessum sökum þurft að fella niður æfingar og takmarka aðgang yngri flokkanna að svæðinu vegna þess að svæðið þyldi ekki álagið. Þetta er óviðunandi ástand og getur ekki gengið til lengdar, sagði Bjarni. Hann sagði að í viðræðum við bæjaryfirvöld að undanförnu hafi verið lögð áhersla á að til þess að anna auknum fjölda iðkenda yrði að koma til gervigrasvöllur á KA-svæðinu, eins og gert hafi verið ráð fyrir í samningum við Akureyrarbæ á sínum tíma, sem síðan var slegið á frest vegna efnhagshrunsins.
„Að lokum vil ég þakka leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum hér í KA-heimilinu fyrir gott samstarf á liðnu ári um leið og ég endurtek þakkir til allra þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem leggja knattpsyrnunni í KA lið með einum eða öðrum hætti. Félögum mínum í stjórn knattspyrnudeildar færi ég þakkir fyrir gott samstarf á liðnu ári. Valgerði Davíðsdóttur, sem hefur nú ákveðið að láta af stjórnarstörfum, þakka ég sérstaklega fyrir mikið og gott starf undanfarin ár,“ sagði Bjarni Áskelsson.

Björg Unnur Sigurðardóttir, formaður yngriflokkaráðs, gerði grein fyrir starfi yngri flokkanna á liðnu ári. Sagði Unnur að starfið hafi í öllum meginatriðum gengið vel.  Iðkendur yfir sumarmánuðina sagði hún að væru á fimmta hundrað og á fjórða hundrað yfir veturinn. Hún gat þess að þrír knattspyrnumenn í þriðja flokki væru viðloðandi landslið í sínum aldursflokkum. Þannig hafi Lára Einarsdóttir, sem er á eldra ári í þriðja flokki KA og spilar jafnframt með Þór/KA í 2. flokki og meistaraflokki, spilað landsleiki á síðastliðnu ári og staðið sig með mikilli prýði. Þá hafi tveir piltar á eldra ári í þriðja flokki, Fannar Hafsteinsson og Ævar Jóhannesson, verið ítrekað boðaðir til landsliðsæfinga í U-17.
Unnur gat þess að auk hinna venjubundnu æfinga væri áhersla lögð á að bjóða þeim iðkendum upp á sérþjálfun. Þannig væri slík þjálfun í boði á morgunæfingum yfir sumarmánuðina og styrktarþjálfun yfir vetrarmánuðina. Þá væri í boði sérþjálfun í samvinnu við framhaldsskólana í bænum og sömuleiðis væri boðið upp á skólaval í grunnskólum.

Í almennum umræðum á fundinum gerði Óskar Þór Halldórsson grein fyrir þeim viðræðum sem fulltrúar KA hafa átt við fulltrúa meirihluta L-listans um mögulega uppbyggingu gervigrasvallar á félagssvæði KA við Dalsbraut og mögulega gerð æfingavalla í Naustahverfi. Kom fram hjá Óskari Þór að þessar viðræður tengdust hugsanlegri lagningu Dalsbrautar, en til þessa væri enn sem komið um að ræða könnunarviðræður sem alltof snemmt væri að segja til um til hvers leiddu. Af hálfu Akureyrarbæjar liggi engar ákvarðanir fyrir um þessar framkvæmdir, en fram hafi komið að línur myndu skýrast í gerð þriggja ára áætlanir sem nú færi í hönd.
Gunnar Jónsson sagði í þessu sambandi að engar ákvarðanir yrðu teknar af hálfu KA í þessum málum nema fyrir myndi liggja ítarleg kynning og samþykkt félagsfundar.

Óskar Þór sagði að samkvæmt upplýsingum Fasteigna Akureyrarbæjar yrðu tilboð í einstaka verkþætti vegna endurnýjunar stúkunnar við Akureyrarvöll opnuð fyrrihluta næsta mánaðar. Í kjölfarið yrði ráðist í verkið og við það væri miðað að skipta verkinu þannig að í fyrsta áfanga yrði lokið við endurnýjun búnings- og dómaraaðstöðu og annarrar aðstöðu í stúkunni sem yrði að ljúka áður en blásið yrði til fyrsta leiks á Akureyrarvelli í vor.

Tveir stjórnarmenn í fráfarandi stjórn knattspyrnudeildar gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, annars vegar Gunnar Gunnarsson og hins vegar Valgerður Davíðsdóttir. Í þeirra stað voru kjörnir í stjórn Sigurður Skúli Eyjólfsson og Hjörvar Maronsson. Aðrir í stjórn eru Bjarni Áskelsson, Páll S. Jónsson, Gunnar Níelsson, Halldór Aðalsteinsson og Sigurbjörn Sveinsson.

-Óskar Þór Halldórsson