Hagnaður af rekstri knattspyrnudeildar KA 2011

Bjarni Áskelsson, gjaldkeri knattspyrnudeildar, fer yfir reikninga liðins árs.
Bjarni Áskelsson, gjaldkeri knattspyrnudeildar, fer yfir reikninga liðins árs.
Tæplega 1,6 milljóna króna hagnaður varð af rekstri knattspyrnudeildar KA á árinu 2011. Velta deildarinnar á síðasta ári - allra flokka - varð samtals röskar 95 milljónir og hækkaði um tíu milljónir milli ára. Þetta kom fram á framhaldsaðalfundi knattspyrnudeildar KA í gær.

Aðalfundur knattspyrnudeildar var haldinn 5. desember sl. og í lok þess fundar var honum frestað þar til fyrir myndi liggja uppgjör ársins 2011. Framhaldsaðalfundurinn var síðan haldinn í gær og þar voru lagðir fram reikningar deildarinnar og þeir samþykktir samhljóða.

Óskar Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar, setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Hann tilnefndi Egil Ármann Kristinsson fundarstjóra og Eggert Sigmundsson fundarritara og samþykkti fundurinn þá tilnefningar.

Bjarni Áskelsson, gjaldkeri knattspyrnudeildar, fylgdi reikningunum úr hlaði og sagðist vera mjög sáttur við rekstrarniðurstöðuna. Tekist hafi undanfarin ár að reka knattpspyrnudeildina réttum megin við núllið, sem væri góður árangur við erfðar aðstæður í samfélaginu. Þakkaði hann öllum þeim sem hefðu lagt á hönd á plóg með einum eða öðrum hætti til þess að ná þessum árangri. Á árinu 2010 var rekstrarniðurstaða knattspyrnudeildar jákvæð um ríflega 700 þúsund krónur og áætlanir gerðu ráð fyrir um 600 þús króna hagnaði í ár, en rekstrarniðurstaðan varð eins og áður segir jákvæð um tæplega 1,6 milljónir króna.

Undir liðnum "önnur mál" ræddi Gunnlaugur Jónsson, þjálfari mfl. kk, um komandi sumar og stöðu KA-liðsins. Hann sagði að breiddin í hópnum væri töluvert meiri en á sama tíma í fyrra og afar mikilvægt hafi verið að fá uppalda KA-menn með mikla reynslu inn í hópinn. Gunnlaugur telur að 1. deildin á komandi sumri verði jafnari en sl. sumar og fleiri lið berjist um þau tvö sæti sem í boði eru til að fara upp í efstu deild.

Gunnlaugur gat um að í KA væri sama vandamál og í flestöllum íslenskum knattspyrnufélögum - of fáir framherjar kæmu upp í gegnum yngriflokkastarfið. Erfitt væri að átta sig á því hvað þessu ylli, en á þessu þyrfti að taka og vinna markvisst í úrbótum. Liður í því væri að í gegnum knattspyrnuakademíu KA, sem er m.a. með morgunæfingar í Boganum, yrði unnið markvisst með framherja í 4. 3. og 2. flokki. Vonandi tækist að skila fleiri framherjum upp í mfl. á næstu árum en tekist hafi á liðnum árum.

Gunnlaugur taldi að KA myndi tefla fram áhugaverðu liði næsta sumar, þar sem margir uppaldir KA-menn yrðu í eldlínunni. Allar forsendur væru til þess að stuðningsmenn félagsins myndu fjölmenna á völlinn og styðja vel við bakið á liðinu. Skoraði hann á stuðningsmenn KA að vera öflugir í stuðningi við liðið næsta sumar og fjölmenna á Akureyrarvöll.

Unnur Sigurðardóttir, formaður yngriflokkaráðs, fór yfir skipan yngriflokkaráðs. Hún ræddi einnig um nauðsyn þess að hafa öfluga tengingu á milli mfl. og yngri flokka félagsins. Þessi tenging væri mikilvægur þáttur í stuðningi við meistaraflokksliðið.