Fótboltasumrinu lauk í gær er KA vann góðan 3-4 útisigur á ÍBV í lokaumferð Bestudeildarinnar en með sigrinum tryggðu strákarnir sér forsetabikarinn sem er afhentur liðinu sem endar í efsta sæti neðri hlutans. Er þetta þriðja árið í röð sem strákarnir vinna neðri hlutann og hafa því unnið bikarinn til eignar.
Í kjölfarið fór svo fram lokahóf knattspyrnudeildar þar sem tímabilið var gert upp. Það ætti ekki að koma mörgum á óvart að Hallgrímur Mar Steingrímsson var valinn besti leikmaður KA á tímabilinu en Grímsi átti frábært sumar og fór auk þess fyrir markaskorun liðsins. Grímsi var markahæstur í sumar með 16 mörk, 13 í Bestudeildinni, tvö í Sambandsdeild UEFA og eitt mark í Mjólkurbikarnum. Það má með sanni segja að Grímsi sé búinn að endurskrifa sögu knattspyrnudeildar KA en hann er meðal annars bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Snorri Kristinsson var valinn efnilegasti leikmaður KA en Snorri sem er aðeins 16 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar leikið 8 leiki fyrir meistaraflokk í deild, bikar og meistarakeppni KSÍ en hann átti meðal annars glæsilega stoðsendingu í 5-1 sigri KA á ÍA á dögunum. Snorri stendur í ströngu þessa dagana með U17 ára landsliði Íslands sem er að keppa í undankeppni EM 2026 og var hann því vant við látinn á lokahófinu.

Steinþór Már Auðunsson eða Stubbur eins og hann er iðulega kallaður náði þeim merka áfanga að leika sinn 100. keppnisleik fyrir KA í sumar. Hann lék sína fyrstu tvo leiki aðeins 17 ára gamall sumarið 2007. Hinir 98 leikirnir komu svo er hann sneri aftur í KA fyrir sumarið 2021. Síðan þá hefur hann verið lykilmaður í liðinu og var meðal annars kjörinn besti leikmaður KA sumarið 2021.

Að lokum var hinum magnaða grillhóp okkar KA-manna veittur Dorrinn. Dorrinn er veittur dyggum stuðningsmönnum og bakhjörlum KA en hann er til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson, sem lést árið 2011 og var einn af heitustu KA-mönnum á Akureyri, er forláta bifreið af gerðinni Benz - í miniútgáfu. Það þótti við hæfi, enda átti Steindór lengi slíkan bíl.