Hallgrímur Mar Steingrímsson, kantmaðurinn knái í KA-liðinu, framlengdi samning sinn við KA í dag og er nú samningsbundinn félaginu næstu tvö keppnistímabil.
Húsvíkingurinn Hallgrímur Mar kom fyrst til KA árið 2008 og hefur síðan tekið miklum framförum og er nú einn af lykilmönnum liðsins. Síðastliðið sumar spilaði Hallgrímur mjög vel og var að loknu tímabilinu valinn leikmaður ársins af stuðningsmannafélaginu Vinum Móða.
„Ég hafði alltaf hugsað mér að framlengja samning minn við KA eftir sl. sumar, en ég viðurkenni að það kitlaði að taka skref upp á við og reyna við Pepsídeildina. En eftir að hafa rætt við stjórnina hjá KA var einföld ákvörðun að vera áfram. Metnaðurinn í félaginu er mikill og ég hef trú á því að okkar markmið, sem er sjálfsögðu er að fara upp um deild, muni nást næsta sumar,“ segir Hallgrímur Mar. Hann segir að sér lítist mjög vel á nýjan þjálfara KA. „Já, mér líst bara mjög vel á Bjarna. Hann er góður þjálfari með mikla reynslu og gerði frábæra hluti með Stjörnuna. Vonandi verður það sama uppi á teningnum með KA. Fyrir næsta sumar hlýtur okkar takmark að vera að gera betur en í fyrra. Okkar helsta vandamál síðustu ár hefur verið að ná góðum stöðugleika, sem er vonandi eitthvað sem við náum að bæta undir stjórn Bjarna. Hann er líka þekktur fyrir að láta sín lið spila mikinn sóknarbolta svo það ætti að vera gaman fyrir alla KA-menn að mæta á Akureyrarvöll næsta sumar, sem ég hvet að sjálfsögðu alla til að gera.“