Hans Viktor Guðmundsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2027. Þetta eru stórkostlegar fréttir en Hans Viktor hefur verið algjörlega frábær frá því hann gekk í raðir KA fyrir sumarið 2024.
Hans Viktor sem er að klára sitt annað tímabil með KA kom strax af miklum krafti inn í félagið og var valinn besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð er KA varð Bikarmeistari í fyrsta skiptið. Hann hefur í kjölfarið byggt enn frekar á þeirri frammistöðu í sumar er KA lék meðal annars gegn liði Silkeborg í Sambandsdeild UEFA.
Hans sem er nýorðinn 29 ára er stór og stæðilegur miðvörður sem er öflugur í návígjum, fljótur og góður að spila boltanum. Hugarfarið hans er til fyrirmyndar þar sem hann gefur alltaf allt í leikinn og heldur haus þegar illa gengur. Þrátt fyrir að leika í hjarta varnarinnar hefur Hans Viktor skorað fjögur mörk í deild og bikar fyrir KA en í heildina hefur hann nú leikið 57 leiki fyrir félagið í deild, bikar og Evrópu.
Hans Viktor, besti leikmaður KA sumarið 2024
Hann er uppalinn hjá Fjölni þar sem hann hafði leikið allan sinn feril áður en hann gekk í raðir KA en með Fjölni lék hann 81 leik í efstu deild auk 73 leikja í næstefstu deild. Þá lék hann 12 leiki fyrir U21 árs landslið Íslands á sínum tíma og skoraði í þeim eitt mark.
Það er ákaflega jákvætt að Hans Viktor sé búinn að skrifa undir nýjan samning við KA og er það lykilskref í undirbúningi liðsins fyrir næsta tímabil að halda honum innan okkar raða. Með frammistöðu sinni með KA hefur hann eðlilega vakið athygli annarra liða og erum við í skýjunum með að halda honum áfram gulum og bláum.