Harðjaxl sem klárar það sem hann byrjar á! - Brian Gilmour kominn í þriðja skiptið til KA

Brian Gilmour
Brian Gilmour

Brian Gilmour kom hingað til KA á miðju tímabili árið 2011. Eftir ágætis reynslu af félaginu ákvað hann að framlengja samning sinn og kom aftur síðasta sumar. Þar sannaði hann sig endanlega sem frábæran fótboltamann og mikilvægan hlekk í liðinu. Nú er hann kominn í þriðja skiptið til landsins en hann hefur framlengt samning sinn við KA til loka september.

Þegar hann er spurður um ástæðuna fyrir því að hann sé kominn aftur í þriðja skiptið segir Brian að hann sé maður sem vilji klára þau verkefni sem hann tekur sé fyrir hendur. Hann lítur á það sem verkefni að koma KA upp um deild og ætlar sér að gera sitt besta til þess að sá draumur rætist.

Eldskírn sína utan Skotlands fékk Brian þegar hann var 19 ára en þá fór hann til Finnlands til þess að spila fótbolta. Hann segir það hafa verið dýrmætt veganesti þegar hann kom svo hingað nokkrum árum síðar þar sem löndin eru töluvert lík auk þess sem bærinn sem hann flutti til þar er frekar lítill líkt og Akureyri. „Fótboltinn er samt númer eitt hjá mér. Þegar ég kom leist mér strax vel á klúbbinn, aðstæðurnar og fólkið sem er að vinna í kringum hann. Ég vissi um leið að hér vildi ég vera. Það skiptir mestu máli, bæjarfélagið og allt annað skiptir minna máli.“ Hann er mjög sáttur við KA og segir aðstæðurnar hér séu með þeim bestu á landinu til fótboltaiðkunar.

Spurður um væntingar fyrir sumarið er Brian með báðar fætur á jörðinni. Stóra takmarkið er auðvitað að koma liðinu upp um deild en hann vill ekki keyra væntingar fram úr öllu hófi. Brian líst vel á mannskapinn og nýja þjálfarann; „Andinn í hópnum er góður, liðið er skipað ungum strákum og þrátt fyrir að ég sé bara 25 ára er ég einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. Það er gott, ég get þá hjálpað ungu strákunum sem eru að koma inn að fóta sig. En það er líka einmitt vegna þess að hópurinn er ungur að ég vil ekki að menn séu að setja of mikla pressu á liðið. Við höfum okkar markmið í klefanum og getum rætt ýmsilegt okkar á milli en það þarf ekki að keyra upp væntingar fram úr öllu hófi þannig að pressan á liðið verði of mikil, það er ekki gott.“

En myndi Brian mæla með því við samlanda sinn sem kæmi að máli við hann, að fara að spila á Íslandi? Klárlega, þegar ég fór 19 ára til Finnlands var það frábær reynsla fyrir mig,ekki út frá fótboltanum heldur líka fyrir mig sem einstakling. Heima í Skotlandi er líka staðan önnur, þar eru kannski 30 byrjunarliðsmenn hjá félaginu sem þú ert að spila hjá. Hér á Íslandi eru hinsvegar meiri tækifæri til þess að spila.“ Hann er einnig nokkuð ánægður með gæði fótboltans hér á landi og segir að hann sé ekki að fá þá viðurkenningu sem hann ætti í raun skilið. „Hér á landi er einnig mjög öflugt unglingastarf sem er mjög jákvætt, það á eftir að auka gæði fótboltans hér í framtíðinni.“

Eins og komið hefur fram er Brian með báður fætur á jörðinni hvað varðar framtíðina. Hann er rólyndismaður sem tekur einn dag í einu og vill ekki vera að byggja upp einhverjar skýjaborgir. Þegar hann er spurður um framtíðina hjá sér gefur hann ekkert upp. „Ég er búinn að framlengja samninginn minn fram í september á þessu ári og svo sjáum við bara til. Ég vil ekki vera spá of mikið í framtíðina og gera mikil plön. Hér bíður mín verkefni í sumar, að standa mig sem best fyrir KA, og svo get ég farið að ákveða hvað ég geri næst,“ segir þessi jarðbundni fótboltamaður sem bíður spenntur eftir verkefnum sumarsins.

-SÞG