Haukur spyrnir boltanum í leiknum gegn Draupni á dögunum.
Haukur Heiðar Hauksson segir sig og liðsfélaga sína vera algjörlega klára í slaginn gegn Njarðvíkingum á morgun og ekkert annað en sigur
komi til greina. Haukur og félagar mæta Njarðvík fyrir sunnan annaðkvöld klukkan 19:00.
,,Við byrjuðum sumarið mjög vel á útisigri gegn Þrótturum þar sem fæstir bjuggust við að við
myndum ná einhverju út úr þeim leik. En eftir það erum við búnir að vera svolítið óheppnir og frekar miklir klaufar eins og
á móti Gróttu þar sem við gáfum þeim mjög ódýrt mark og líka á móti ÍR þar sem við fengum nokkur
tækifæri í fyrri hálfleik til að klára leikinn og svo fannst mér mörkin sem þeir skora gífurlega klaufaleg af okkar hálfu,"
sagði Haukur um byrjunina á tímabilinu.
,,En við erum að spila fínan bolta og erum að skapa okkur færi og ef við náum að koma í veg fyrir þessi
ódýru mörk sem við fáum á okkur þá höfum við alla burði til að fara langt í sumar."
Liðið er með 4 stig eftir 3 leiki í deildinni og segist Haukur ekki vera sáttur með það.
,,Ég er ekki sáttur
með það miðað við hvernig þessir leikir eru búnir að spilast sem við erum búnir að tapa stigum í. Eins og ég segi
þá finnst mér við búnir að vera svolitlir klaufar að vera ekki með fleiri stig."
Næsti leikur liðsins er á morgun gegn Njarðvík en hann er jafnframt þriðji útileikur liðsins á tímabilinu af fjórum leikjum.
,,Leikurinn leggst mjög vel í mig, við erum vel stemmdir fyrir leikinn og eins og í hverjum leik ætlum við okkur þrjú
stig. Við eigum örugglega eftir að mæta mjög grimmum Njarðvíkingum þar sem þeir eru búnir að byrja mótið illa og ætla
sér að ná í sín fyrstu stig á móti okkur."
,,Það segir ekki neitt þó að þeir séu búnir að tapa þremur leikjum í röð, þessi leikur
verður jafn erfiður og hver annar leikur í deildinni. Það verður ekkert vanmat af okkar hálfu."
Haukur á að baki fimm U19 landsleiki og tvo fyrir U18 ára landsliðið en hann átti mjög gott tímabil í fyrra og hefur fest sig í sessi sem
lykilmaður í KA-liðinu þrátt fyrir að vera enn í öðrum flokki, en er hann ánægður með frammistöðu sína í
sumar?
,,Jájá, ég er svona þokkalega sáttur, en ég á meira inni," sagði þessi hægri
bakvörður KA-manna að lokum.