Howell sá um Gróttu

Daniel Jason Howell minnti rækilega á sig á Seltjarnarnesinu í gær þegar hann skoraði þrennu gegn sínum gömlu félögum í Gróttu í afar mikilvægum 3-0 sigri KA á Seltirningum í 1. deildinni í fótbolta. Sigurinn gerði það að verkum að KA hefur nú tryggt sæti sitt í 1. deildinni og nú er bara að klára hana með stæl í þeim þremur leikjum sem eftir eru gegn Víkingi Ólafsvík og Bí/Bolungarvík á heimavelli og Skagamönnum á útivelli.

Heilt yfir voru KA-menn sterkari aðilinn í leiknum gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í gær og sigurinn fyllilega verðskuldaður. Liðið var í heildina þétt og sigurviljinn var meiri okkar megin, sem var mikilvægt því með sigri í gær ýttu KA-menn falldraugnum endanlega út af borðinu. Þegar þrjár umferðir eru eftir hafa neðstu lið deildarinnar, HK og Leiknir, ekki nokkurn möguleika á að ná KA-mönnum að stigum, þrátt fyrir að bæði þessi lið myndu ná að sigra alla þá þrjá leiki sem þau eiga eftir að spila. KA-menn eru með sigrinum á Gróttu í gær komnir með 23 stig, en HK og Leiknir eru með 12 og 13 stig. Með þremur sigrum geta þessi lið því einungis komist í 21 og 22 stig.

Sem fyrr segir var bandaríski framherjinn í liði KA, Dan Howell, á skotskónum í gær. Hann setti þrennu í leiknum. Fyrri tvö mörkin skoraði hann í fyrri hálfleik og innsiglaði síðan góðan leik með þriðja markinu í síðari hálfleik. Frábær leikur hjá Howell og öllu KA-liðinu, sem sýndi mikinn baráttuvilja og kraft og vildi sigurinn meira en Gróttumenn. Nú er bara að klára mótið með stæl og sýna Ólsurum, Djúpmönnum og Skagamönnum í tvo heimana í síðustu þremur leikjum í deildinni.

Howell lenti í samstuði í leiknum í gær og hlaut skurð á höfði, sem var síðan saumaður saman að leik loknum í gær. Þetta hnjask ætti þó ekki að koma í veg fyrir að Howell verði tilbúinn í slaginn gegn Víkingi Ólafsvík nk. laugardag á Akureyrarvelli. Boris Lumbana varð einnig fyrir meiðslum í læri í leiknum í gær, en þess er vænst að þau séu ekki alvarleg.