Hvar er hann nú/pistill: Þorvaldur Makan

Þorvaldur Makan
Þorvaldur Makan

Þá er komið að næsta manni á dagskrá en það er KA-goðsögnin Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, mæli með því að allir lesi þennan pistil frá Makan.


Fullt Nafn

Þorvaldur Makan Sigbjörnsson. 

Leikir fyrir KA í deild og bikar?

Veit það ekki en lausleg athugun gefur um 150 leiki og 60 mörk.

Hvað gerirðu af þér í dag?

Sérfræðingur hjá Skilanefnd Glitnis.

Giftur/sambúð?

Giftur Katrínu Jónsdóttur, fyrirliða íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

Börn?

Egill Darri, tíu ára knattspyrnukappi og harður KA-maður þó hann búi ekki á Akureyri.

Hvað eru liðin mörg ár frá síðasta leik þínum fyrir félagið?

Lék síðast með KA árið 2007, tók fram KA-skóna aftur eftir fjögurra ára fjarveru.  Gat því miður lítið sem ekki neitt.

Á hvaða árum spilaðir þú fyrir liðið?

Spilaði með þeim frá 1991-1996, frá 2000-2004 og svo árið 2007 til sælla minninga. 

Hver var þjálfari liðsins á þeim tíma?

Margir snillingar og miklir KA-menn, Gunni Gísla, Steini Birgis/Erlingur Kristjáns, Pétur Ormslev, Einar Einars, Toddi Örlygs og Pétur Óla.

Besti leikmaður liðsins á þeim tíma?

Það hafa verið margir frábærir knattspyrnumenn hjá KA í gegnum tíðina.  En knattspyrna er sem betur fer hópíþrótt og einn einstaklingur getur ekki unnið leiki upp á sitt einsdæmi.  

Besti KA-leikmaður allra tíma?

Erfitt að gera upp á milli margra góðra manna. En ætli Toddi Örlygs hafi ekki náð hvað lengst af mönnum sem höfðu hæfileika og getu til að ná langt.  Það sem hann hafði/hefur umfram aðra er ótrúlegur metnaður og keppnisskap fyrir að ná langt í íþróttinni og það gerði hann vissulega.  Ég er hinsvegar klár á því að KA hefur haft í gegnum tíðina fjölmarga ekki minna hæfileikaríka menn sem hefðu einnig getað náð í ensku úrvalsdeildina ef metnaðurinn og eljan hefði verið til staðar. 

Fylgistu með liðinu í dag?

Já það geri ég og hef ávallt gert.  Þrátt fyrir að maður búi ekki á staðnum og hafi spilað með öðrum liðum þá er uppruni hjartans blár og gulur og fjölskyldufélagið KA mun alltaf verða hluti af mér.

Skoðar þú heimasíðuna reglulega?

Já, það hefur aukist.  Mér finnst sérstaklega gaman þegar er skrifað um leiki félagsins, pistlar koma inn eftir góða og gilda KA-menn og einnig þegar menn setja inn athugunarsemdir á hitt og þetta.  Þó ég geri það alltof sjaldan sjálfur þá finnst mér gaman að lesa það.

Ferillinn tók skyndilega krappa beygju, einhver eftirsjá?

Ferillinn tók margar krappar beygjur, bæði upp á við og niður á við.  Og auðvitað er alltaf einhver eftirsjá vegna ákvarðana sem maður tekur og telur á seinni stigum að hægt hafi verið að taka gáfulegri ákvarðanir. Stundum sé ég eftir því að hafa ekki samþykkt samninginn við Stoke en ég er hinsvegar sáttur við stöðu mína í dag, giftur frábærri manneskju, á heilbrigðan og flottan son, er í fínni vinnu og með góða menntun.  Það er ekki víst að ég hefði haft allt þetta ef ég hefði tekið einhverja aðra beygju á ferlinum. 

Skemmtilegasta lið sem þú spilaðir með á ferlinum?

Ætli það séu ekki gömlu kempurnar sem ég spila með á þriðjudögum.  Þar koma saman leikmenn sem eru með meira en 50% af A landsleikjum Íslands frá upphafi (Gulli Jóns þjálfari KA er t.d. hluti af þessum hópi).  En svona að öllu gamni slepptu þá er mjög erfitt að gera upp á milli góðra liða, KA-liðið sem ég spilaði með 1991 var flott og mikið um unga og efnilega leikmenn, kannski of mikið um það.  KA-liðið sem tapaði naumlega fyrir Fylki í bikarúrslitum 2002 og endaði svo í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar árið eftir var líka mjög gott.  Einnig var Valsliðið 2006 mjög gott, en ég spilaði varla með þeim þar sem meiðslin voru heldur betur farin að segja til sín þá. En ætli ég verði ekki að segja Leiftursliðið 1997, það var hreint út sagt frábært enda einhverjir 9 leikmenn sem spiluðu á einhverjum tímapunkti fyrir A-landslið Íslands.

Þú ert einn fárra KA leikmanna sem hafa spilað A-landsleik og það gegn Brasilíu, hvernig var sú tilfinning?

Það var auðvitað frábært að fá að leika fyrir hönd Íslands og hvað þá við Brasilíu á þeirra heimavelli fyrir framan tæplega 80.000 manns.  Verra var hinsvegar að ég brenndi af dauðafæri og enn verra að tapa leiknum 6-1, þó það hafi kannski verið raunhæft að tapa leiknum gegn verðandi heimsmeisturum á útivelli í 37 stiga hita.

Mun kræla á Makan hjá KA í framtíðinni?

Já, það er alveg eins líklegt.  Bý í Svíþjóð eins og er en landið er gult og blátt og því ekki annað hægt en að líða vel hér.  En þar sem konan mín hyggur á framhaldsnám í læknisfræði hér þá er líklegt að við verðum hér e-ð áfram, maður veit þó aldrei. 

Hvað gerist í framtíðinni veit maður aldrei en ég á marga góða vini á Akureyri sem er góður staður.

KA er miklu meira en bara íþróttafélag í mínum huga. Þær tengingar sem ég hef myndað við fólk innan félagsins í gegnum tíðina hafa verið frábærar og áran sem maður finnur fyrir þegar maður kemur upp í KA- heimili er einnig yndisleg, þetta er ekki KA-heimili af ástæðulausu. Einnig stuðningur félagsins/félagsmanna við fráfall pabba og Dorra frænda var mér ómetanlegur og að sjá leikmenn KA í búningunum fyrir utan kirkjuna þótti mér ákaflega vænt um.

Skemmtileg saga frá tíma þínum hjá KA?

Á þær nokkrar sem eru best geymdar innan búningaklefans en ætli sé ekki í lagi að láta söguna fljóta þegar við vorum að spila úrslitaleik við Þrótt á Valbjarnarvelli um að fara upp um deild (2001 minnir mig).  Við vorum skítlélegir í fyrri hálfleik og Toddi Örlygs er mjög ósáttur og sparkar í vatnsbrúsana með þeim afleiðingum að þeir lenda á Stebba Gull (þáverandi formanni) sem var í base lituðum fötum og hélt á kaffi og það helltist allt yfir hann.  Toddi vissi ekkert hvað hann átti að segja og sagði okkur að fara út og hita upp.  Við fórum því út að hita upp í rúmar 10 mínútur í hálfleik.

Annað

Þegar ég var í 2. flokki þá voru ég, Ívar Bjarklind, Þórhallur Hinriks, Sigþór Júl og Guðni Rúnar Helgason (held að þeir hafi allir spilað A-landsleik), Bjarki Braga og Eggert Sigmunds sem spiluðu alla leiki fyrir 2. flokk og meistaraflokk. Þrátt fyrir að vera mjög efnilegir þá lentum við í vandræðum í meistaraflokki.  Það er nefnilega gríðarlega mikill munur á að vera efnilegur og góður. En umskiptin á þessum tíma voru alltof hröð, KA hafði verið Íslandsmeistari einhverjum tveimur árum áður og við vorum hreinlega ekki tilbúnir í svona mikla ábyrgð.  Þetta varð til þess að við misstum efnilega leikmenn frá félaginu og það lenti í öldudal 

Hins vegar líst mér nokkuð vel á það sem KA er að gera í dag.  Þeir virðast vera að reyna að búa til blöndu af ungum og reyndari leikmönnum.  Þeir hafa ráðið góðan þjálfara en það mun taka tíma að slípa liðið saman og ég vona að Gulli fái þann tíma. Einnig finnst mér skynsamlegt að lána leikmenn til nágrannafélaganna og láta leikmenn fá nauðsynlega reynslu og spilatíma í meistaraflokki. 

Ég myndi hinsvegar vilja gefa ungum leikmönnum ráð, það er að setja sér nokkurra ára markmið.  Hafa markmið um hvert þeir vilja stefna og hvaða leiðir þeir ætla að því.  Það er ekki víst að allir hafi það að markmiði að ná langt í knattspyrnunni en hafa samt markmið um menntun eða hvert annað þeir vilja stefna.  Það þarf að færa fórnir til þess að ná langt og þangað geta menn náð ef skipulag og vilji er fyrir hendi.

Að lokum vil ég þakka fyrir að hafa fengið að vera hluti af félaginu KA og kynnst öllu því frábæra fólki sem þar hefur starfað. 

Með kærri KA-kveðju og gangið ykkur vel í sumar.

Þorvaldur Makan