Jafntefli gegn Víkingi R á Akureyrarvelli

KA og Víkingur R deildu stigunum í leik liðanna á Akureyrarvelli í kvöld þar sem vindurinn var í aðalhlutverki. Víkingar skoruðu í fyrri hálfleik með sterkan vind í bakið og síðan snerist dæmið við í seinni hálfleik og Dávid Diszt jafnaði metin eftir fína sendingu frá hægri. Jafntefli því niðurstaðan sem verða að teljast nokkuð sanngjörn úrslit.
Vefmiðillinn Fotbolti.net birti eftirfarandi umfjöllun um leikinn i kvöld:
"Eftir tvo útileiki í Breiðholtinu í röð fengu KA menn loksins sinn fyrsta heimaleik. Töluverðar endurbætur hafa átt sér stað á Akureyrarvelli en þær hófust síðasta sumar, eitthvað virðast framkvæmdir hafa dregist þar sem aðeins um 40min fyrir leik voru menn með slípirokka og verkfæri á lofti við það að festa síðustu sætin í stúkuna og setja saman þá stóla sem prýða fréttamannaherbergið. Þetta hafðist þó allt fyrir leik og er við hæfi að óska KA mönnum til hamingju með þessa nýju aðstöðu sína sem er glæsileg í alla staði. Töluverður vindur var í kvöld þrátt fyrir fallegt veður, inn á milli komu svo mjög öflugar hviður sem áttu eftir að setja svip sinn á leik kvöldsins.

Það var alveg ljóst strax frá upphafi hvort liðið mætti grimmari til leiks en það tók þá aðeins fjórar mínútur að koma sér í fyrsta færið en þar var á ferð Hjörtur Júlíus Hjartarson sem potaði fæti í boltann eftir hnoð í teignum en boltinn hafnaði í tréverkinu. Víkingar héldu boltanum vel innan liðsins og stjórnuðu leiknum. Á 13. Mínútu leiksins komst Sigurður Egill Lárusson aleinn í gegnum vörn KA og átti aðeins eftir að koma boltanum framhjá Sandor Matus í marki KA en það reynist mönnum oft nokkuð erfitt sem var raunin í þetta sinn, Sandor varði glæsilega. Áfram héldu Víkingar að þjarma að KA mönnum en þrátt fyrir mikið spil gekk þeim ekki nægilega vel að koma sér í góð færi þangað til að það kom á silfurfati. Erfitt var að sjá hvað gekk á en mikið hnoð átti sér stað í teignum sem endaði á því að Egill Atlason kom boltanum í netið eftir misskilning milli markmanns og varnarmanns KA. Svo sannarlega verðskulduð forusta enda í raun aðeins eitt lið á vellinum í þessum fyrri hálfleik og þannig hélst staðan þangað til að Halldór Breiðfjörð flautaði til hálfleiks.

Það varð svo ljóst snemma í seinni hálfleiknum hversu stórt hlutverk vindurinn spilaði í þeim fyrri. KA menn mætti mun grimmari til leiks og tóku við að stjórna leiknum og halda boltanum á meðan Víkingar voru í basli að ná upp spili. Þeir áttu þó ekki í jafn miklum erfiðleikum og leikmenn KA í fyrri hálfleiknum og ógnuðu vörn KA öðru hverju með hættulegum skyndiupphlaupum. Annað mark leiksins lét sjá sig á 74. mínútu en þar var á ferð David Disztl en hann var flaggaður rangstæður, óvinsæll dómur upp í stúku en vonlaust að sjá úr fréttamannaherberginu hvort að hann var réttur eða ekki. Disztl virtist láta það hafa lítil áhrif á sig og skoraði bara aftur um tveimur mínútum seinna og í þetta sinn var það 100% löglegt. Jakob Hafsteinsson átti góðann sprett upp hægri vænginn sem hann kláraði með topp sendingu fyrir markið þar sem Disztl var mættur á fjærstöng og stangaði boltann í netið.

Víkingar tóku aðeins við sér eftir markið en lítið markvert gerðist það sem eftir lifði leiks nema þá rétt fyrir lokin. Patrik Snær Atlason fékk þá boltann í fæturna rétt við markteig heimamanna en skot hans fór rétt framhjá markinu á 92. Mínútu og var það síðasta færi leiksins. Patrik á líklegast eftir að naga sig aðeins í handarbökin en hann hefði getað klárað leikinn fyrir sína menn. 1-1 var niðurstaðan sem líklegast var nokkuð sanngjörn, Víkingar voru þó líklegast nokkuð betri í heildina og náðu að koma sér í betri færi en það þarf víst líka að klára þau og það gekk ekki nægilega vel hjá þeim í kvöld."