Jóhann Mikael Ingólfsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2028. Eru þetta ákaflega jákvæðar fréttir en Jóhann er einn efnilegasti markvörður landsins og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Jóhann sem er aðeins 18 ára gamall er að koma uppúr yngriflokkastarfi KA en hann lék sinn fyrsta leik í Bestu deildinni í fyrra er hann kom inn á í 2-1 sigri á Vestra, þá aðeins 17 ára gamall. Í sumar hefur hann verið í leikmannahópi meistaraflokks KA í nokkrum leikjum, þar á meðal í Evrópu gegn Silkeborg. Þá hefur Jóhann verið fastamaður í yngrilandsliðshópum Íslands að undanförnu og lék sína fyrstu landsleiki fyrir U17 í vetur.
Hann hefur verið afar sigursæll með yngriflokkum KA og varð meðal annars Íslandsmeistari með 2. flokk í fyrra og var að sjálfsögðu á sínum stað í byrjunarliði 2. flokks er strákarnir gerðu 2-2 jafntefli við Lettneska liðið FS Jelgava á dögunum. Liðin mætast í síðari leiknum á Greifavellinum þann 1. október og verður spennandi að sjá hvort Jói og liðsfélagar hans nái að tryggja sig áfram í næstu umferð UEFA Youth League.
Það er afar jákvætt að Jóhann sé búinn að skrifa undir nýjan samning og verður afar spennandi að fylgjast með framgöngu þessa öfluga markmanns næstu árin, óskum honum og knattspyrnudeild KA til hamingju með samninginn.