Jóhannes Valgeirsson: Jafnvel erfiðara að dæma í neðri deildunum

- Jóhannes Valgeirsson í spjalli um dómgæsluna
Nú í sumar hafa þrír KA-menn verið í eldlínunni í Landsbankadeildinni í sumar, um er að ræða þrjá dómara, Jóhannes Valgeirsson milliríkjadómara, Áskel Þór Gíslason aðstoðardómara og Sverri Gunnar Pálmason aðstoðardómara.

Allir hafa þeir dæmt fjöldan allan af leikjum og þótt standa sig vel, til að myndavar Jóhannes valinn besti dómarinn í fyrstu sjö umferðum Landsbankadeildarinnar fyrr í sumar og er það ekki í fyrsta sinn en hann hefur verið talinn einn af bestu dómurum landsins undanfarin ár.

Einnig hefur Jóhannes verið að dæma leiki erlendis í Evrópukeppnum og svo landsleiki en þar hefur Áskell Þór Gíslason einnig verið við störf. Að sjálfsögðu hafa svo þeir þremenningar allir flautað heilmarga leiki á hinu frábæra N1-móti KA og munu eflaust gera áfram og segja þeir það ekki síður skemmtilegt heldur en boltinn hjá 'þeim stóru'.

Heimasíðan heyrði í Jóhannesi Valgeirssyni og spurði hann aðeins út í störf dómara sem geta verið mun erfiðara en menn gera sér grein fyrir og skemmst er að minnast ummæla Guðjóns Þórðarsonar fyrrum þjálfara ÍA í garð Ólafs Ragnarssonar dómara í vor þar sem hann fór ekki fögrum orðum um Ólaf sem hafði dæmt tapleik ÍA gegn Keflavíkur.

Jóhannes hefur eins og áður segir dæmt um nokkurn tíma í Landsbankadeild og svo fengið erlend verkefni, en ætli sé mikill munur á þessu? ,,Jájá, það er mjög mikill munur þar á. Í Evrópukeppnunum eru bestu lið hvers lands fyrir sig að etja kappi saman. Tala nú ekki um þegar um landslið er að ræða þar sem bestu leikmenn hverrar þjóðar eru að spila á móti hver öðrum. Hraðinn er oftast talsvert meiri og í flestum tilfellum er umgjörðin umsvifameiri.," sagði Jóhannes og bætti svo við. ,,Síðan erum við að tala um nokkru fleiri áhorfendur og stemningin á völlunum í takt við það."

Fyrr í sumar ásakaði Guðjón Þórðarson Ólaf Ragnarsson dómara fyrir að vera ekki í nægilega góðu líkamlegu ásigkomulagi til að dæma leiki í efstu deild. ,,Undirbúningstímabil dómara hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. KSÍ hefur til að mynda ráðið þjálfara til að sjá um þjálfun okkar dómaranna og hér fyrir norðan hefur Gísli Sigurðsson frjálsíþróttaþjálfari með meiru, haldið utan um dómarana á vegum Knattspyrnudómarafélag Norðurlands(KDN)."

,,Við norðan menn riðum þó á vaðið fyrir nokkuð löngu síðan og höfum æft af miklu kappi síðustu 5-6 árin. Dean Martin sá um okkur fyrst og svo þegar hann fór suður á Akranes tók Þorvaldur Örlygsson að sér að halda okkur við efnið,"
sagði Jóhannes svo það er greinilegt að dómararnir hér fyrir norðan ættu að vera í góðu formi enda þurfa þeir að hlaupa í leikjum, ekki síður en leikmennirnir. ,,Við erum að æfa þetta 4-6 sinnum í viku á undirbúningstímabilinu. Þetta hefur klárlega skilað sér í betri dómurum eins og sést best á því að í dag á KA einn milliríkjadómara og einn milliríkjaaðstoðardómara. Síðan eru fjórir meðlimir KDN að starfa reglubundið í Landsbankadeildinni og þar af 3 KA-menn."

Jóhannes segir kröfuna um líkamlegt atgervi einnig vera orðna mikla í efstu deildum landsins en það geti þó oft verið snúnara að dæma leiki í neðri deildunum enda komi þar í ljós hvort menn hafi það sem til þarf til að dæma hjá þeim bestu.

,,Það segir sig sjálft að bestu leikmennirnir eru í efstu deild. Þar eru gæðin mest og oftast skemmtilegasti fótboltinn. Krafan um líkamlegt atgervi sterkust og þar leiðandi hraðinn meiri. Hins vegar er oftar en ekki erfiðast að dæma í neðri deildunum vegna þess að gæðin eru augljóslega minni og líkamlega formið síðra. Af þeim sökum koma upp atvik þar sem menn ráða ekki við tæknina eða hraðann. Ungir dómarar fá því eldskírnina í neðri deildunum og þá kemur í ljós hverjir hafa bein í nefinu til að fara lengra."

Hann hefur eins og áður segir verið að dæma erlendis t.d. í Evrópukeppni félagsliða og undankeppninni fyrir EM 2008 en honum finnst enginn einn leikur standa upp úr sem sá allra skemmtilegasti. ,,Það eru svo margir leikir skemmtilegir í minningunni. Fullt af skemmtilegum leikjum í Landsbankadeildinni. Stærsti leikurinn minn hingað til og einn sá skemmtilegasti var síðasta sumar í undankeppni Euro 2008 í Belgíu. Það var mjög gaman, síðan fékk ég mjög skemmtilegan leik í UEFA Cup í sumar í Slóvakíu. Hann er líka einn erfiðasti leikur sem ég hef dæmt. Það hafði verið ausandi rigning í sjö tíma með tilheyrandi vallaraðstæðum (engir pollar samt - bara rennandi blautt grasið) liðin léku á svakalegu tempói í 90 mínútur og leikurinn bauð upp á endalaus atvik sem kallaði á að vera stanslaust á tánum. Frábær skemmtun fyrir alla sem að komu eða horfðu á."

Í byrjun sumars var nokkuð um umdeild atvik í dómgæslunni sem drógu nokkurn dilk á eftir sér og ber þar hæst að nefna ummælin hjá Guðjóni í garð Ólafs Ragnarssonar dómara og svo var nokkuð um ósætti þjálfara í garð dómara en það hefur minnkað til muna í síðari umferð Landsbankadeildarinnar.
,,Það fylgir þessu starfi ákveðið magn af "gosum" frá þjálfurum og forráðamönnum."

,,Mér hefur fundist að dómgæslan í sumar hafi verið með ágætum, en þó með sínum eðlilegu undantekningum. Umfjöllun fjölmiðla og skilningur þeirra manna væri vert að ræða á opinberum vettvangi, í góðum tómi og á vinsamlegum nótum. Það skal þó viðurkennt hér að á undanförnum árum hefur færst í vöxt óhróður um einstaklinga og persónur sem hvergi á að sjást."

,,Held að mönnum hafi ofboðið í sumar og við þess vegna verið lausir við slíkt seinni partinn. En menn munu samt halda áfram að "gjósa" annað slagið þegar viðkomandi er hættur að ráða við sig og spennuna. KSÍ mun vonandi hafa manndóm í sér til að taka fastar á slíkum málum í framhaldinu, annars mun ekki nokkur nýr dómari verða til í þetta starf."

Íþróttafréttamiðlar hafa oft verið með og eru með einkunnagjafir á frammistöðu dómarans - Jóhannes segir alla vel rökstudda gagnrýni af hinu góða. ,,Maður reynir að láta þetta framhjá sér fara en hégóminn kitlar og því kíkir maður eftir umsögn. Vel útfærð og rökstudd gagnrýni er gulls ígildi og verður ekki vanmetin. En mikið óskaplega er lítið um hana, því miður!"

Aðspurður út í leikmenn og hvort þeir séu orðnir erfiðari núna en áður vill hann ekki meina það. Þeir eru þónokkrir í sumar sem hafa fengið gult spjald og jafnvel tvö gul og þar með rautt spjald fyrir svokallað kjaftbrúk þegar þeir telja dómarana hafa rangt fyrir sér en Jóhannes telur þetta eðlilegt. ,,Nei þeir eru alls ekki orðnir erfiðari. Leikmenn eru bara fólk eins og ég og þú. Menn gleyma sér í hita leiksins og þá er mitt hlutverk að meta til hvaða aðgerða skuli taka, ef nokkurra. Leikmenn eru upp til hópa skemmtilegt fólk og mér finnst gaman að skemmtilegu og lifandi fólki. Svo einfalt er það."

Að lokum spurðum við svo hinn reynda dómara út í eitthvað skemmtilegt atvik í leik þar sem hann hafi verið með flautuna. ,,Félagar mínir eru enn að hlægja að því þegar ég var eitt sinn að dæma leik í Boganum og ætlaði að færavarnarvegginn aftar. Bakkaði heldur ógætilega og rak hælinn í grasið og steinlá á bakið. Það þarf ekki alltaf mikið til að gleðja vesæla...en maður er jú þátttakandi í þessu lífi til að skemmta félögunum, eða er það ekki," sagði Jóhannes hress að lokum en við óskum honum og Áskeli og Sverri góðs gengis áfram en þeir hafa allir verið settir á leik í lokaumferð Landsbankadeildarinnar og ber að nefna að Jóhannes dæmir leik Keflavíkur og Fram þar sem úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn gætu ráðist.