Jói Valgeirs: Dómarar hér fyrir norðan vel undirbúnir

Jói Valgeirs með flautuna.
Jói Valgeirs með flautuna.
Jóhannes Valgeirsson hefur verið einn fremsti dómari landsins undanfarin ár en hann er einn þriggja dómara sem dæma fyrir hönd KA og eru í svokölluðum Landsdómara A flokki.

Ásamt Jóhannesi sem dæmir fyrir hönd KA eru það Áskell Þór Gíslason en hann er  milliríkjaaðstoðardómari og svo Sverrir Gunnar Pálmason sem er landsdómari. Á dögunum eignaðist KA svo nýjan dómara þegar Jóhann Már Kristinsson gekk í hóp Landsdómara D en þeir gegna störfum í neðri deildunum og dæmdi Jóhann sinn fyrsta leik í gær í VISA-bikarnum.

,,Sumarið leggst afar vel í mig. Ég hef trú á að þetta geti orðið virkilega skemmtilegt knattspyrnusumar. Liðin koma vel undirbúin. Vellirnir virka margir hverjir í fínu standi og því allar forsendur fyrir skemmtilegu sumri," sagði Jói.

Oft hefur dómaranefnd komið með ansi breyttar áherslur fyrir hvert og eitt tímabil og svo eru stundum valin ákveðin atriði sem á að taka harðar á en venjulega, eins og leikaraskapur og fleira.

,,Í raun er ekki neitt alveg nýtt að gerast. Það er alltaf verið að skerpa ákveðnar áherslur sem hafa verið í gangi í lengri tíma. Taka fast á alvarlega grófum leik. Svo þurfa dómarar alltaf að vera á tánum gagnvart rangstöðunni svo að mönnum sé einungis refsað fyrir að vera í rangstöðu ef menn taka þátt, hafa hag af stöðu sinni eða trufla mótherja á refsiverðan hátt. Það er ekki bannað að vera í rangstöðu. Síðan eru skýr skilaboð frá dómaranefnd um að koma á skikki í boðvangi. Fá forráðamenn á varamannabekk til að koma fram af ábyrgð og með íþróttamennsku í fyrirrúmi."

Undirbúningstímabil leikmanna nær yfir meira en hálft ár og eru þeir oftast í stífum og erfiðum æfingum til að vera í góðu standi þegar tímabilið byrjar. Jóhannes segir dómarana einnig vera að æfa undir slíku álagi til að vera klára í slaginn og til að standast allar lágmarkskröfur en hraðinn í leiknum er alltaf að aukast.

,,Undirbúningstímabil dómaranna hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár. Við hér fyrir norðan höfum lagt mikið á okkur, mörg undanfarin ár, í undirbúningi til að koma til leiks í sem bestu formi. Nú hefur KSÍ tekið af skarið og dómarar æfa 2x í viku hverri undir handleiðslu topp þjálfara. Síðan sjá menn um sig sjálfir hina dagana. Síðan hefur KSÍ verið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík um alls konar ástandsmælingar á dómarahópnum 3 - 4 x yfir veturinn, auk hinna hefðbundnu hlaupaprófa sem eru reglulega. Við hér fyrir norðan tökumk okkur yfirleitt svona 2 vikur í frí eftir að tímabili líkur. Þannig að frá 15. október hafa menn verið að æfa þetta 4 - 6 x í viku. Kjarninn í hópnum hér fyrir norðan er því virkilega vel undirbúinn fyrir átök sumarsins."

Í vetur í Evrópudeildinni var prófað nýtt dómarakerfi þar sem tveimur aukadómurum var bætt við þessa þrjá sem menn eru vanir að sjá. Jóhannes hefur prufað þetta kerfi ásamt öðrum íslenskum dómurum erlendis. Þessir auka menn voru við sitt hvora endalínuna en er þetta fyrirkomulag eitthvað sem er komið til að vera?

,,Þetta hefur verið mjög skemmtilegt verkefni og það verður gaman að sjá hver niðurstaða UEFA verður með þetta mál. Hygg að það séu alls konar fundir í gangi um þetta dæmi um alla Evrópu þessar vikurnar. Manni sýnist að það geti brugðið til beggja vona í þessu. Heyri þó út undan mér að menn séu almennt ánægðir með þessa tilraun og hún hafi klárlega hjálpað í mörgun tilfellum. Það eru jákvæðir punktar í þessu en voða lítið af neikvæðum og ætti því að geta verið dómgæslunni til framdráttar ef UEFA ákveður að setja þetta inn á einhverju "leveli" fótboltans."

Tuð og röfl leikmanna, þjálfara og svo áhorfenda ef dómari tekur ákvörðun um að dæma eitthvað sem þátttakendur leiksins eru ekki sáttir við er þekkt í knattspyrnuheiminum. Oft má heyra köll úr stúkunni til dómarans og svo tuða sumir leikmenn mikið í dómurunum.

,,Jú jú en það lærist .. og maður hefur með tímanum reynt að ýta því frá sér. Það koma þó alltaf tímar þar sem maður fær nóg og veltir fyrir sér hvort menn hafi bara ekki nógu gaman að þessum leik. En þá man ég bara hvað ég hef gaman að þessu sjálfur og reyni að tækla stöðuna út frá þeirri forsendu !,"sagði Jóhannes og brosti.

Jói dæmir fyrir hönd KA og því fylgist hann auðvitað með gengi KA-liðsins.
,,Mér líst vel á KA liðið. Góð blanda af ungum og eldri leikmönnum. Svo sýnist mér Dean vinur minn vera með liðið í fanta formi og hann veit líka alveg hvað klukkan slær í fótboltanum. Það er þó afar mikilvægt að byrja vel til að byggja upp sjálfstraust leikmanna. Sérstaklega eftir frekar brösótt gengi í vetur. Það er nefnlilega hægt að venjast því að tapa og vinna ef maður gerir nógu mikið af því. Þess vegna var það afar sterkt að fara suður og sigra sterkt lið Þróttara í fyrstu umferðinni."