Penninn frægi var enn og aftur á lofti hjá KA-mönnum í dag þegar að Juraj Grizeli skrifaði undir samning við félagið. Hann mun styrkja lið KA enn frekar í komandi átökum í 1. deildinni í sumar. Juraj er Íslendingum ekki ókunnugur en þessi flinki leikmaður hefur spilað í Grindavík undanfarin tvö ár við góðar undirtektir.
Juraj er kantmaður frá Króatíu en hann var valinn í lið ársins í 1. deildinni sumarið 2013. Í fyrra skoraði Juraj átta mörk í 19 leikjum í fyrstu deildinni með Grindavík.
Þetta er fjórði leikmaðurinn sem semur við KA á stuttum tíma en þeir Hilmar Trausti Arnarsson, Halldór Hermann Jónsson og Elfar Árni Aðalsteinsson eru allir nýgengnir í raðir félagsins. Þá er Archange Nkumu á tímabundnum samning hjá KA og mun spila með þeim í Lengjubikarnum, í það minnsta.