KA 2 tapaði fyrir Þór 1 í Hleðslumótinu í dag

KA 2 tapaði 1-4 fyrir Þór 1 í öðrum leik sínum í Hleðslumótinu í Boganum í dag. Miklar sviptingar voru í leiknum og fengu leikmenn í báðum liðum að líta rauða spjaldið.

Byrjunarlið KA 2 var þannig skipað að í markinu var Fannar Hafsteinsson. Í miðverðinum voru Jakob Hafsteinsson og Haukur Hinriksson. Í bakvarðastöðunum Ómar Friðriksson og Kristján Freyr Óðinsson. Á miðjunni voru Davíð Rúnar Bjarnason, Bjarni Mark Antonsson og Þórður Arnar Þórðarson. Á köntunum þeir Benóný Sigurðsson og Jóhann Örn Sigurjónsson og fremstur var Guðmundur Óli Steingrímsson.

KA-strákarnir byrjuðu betur í leiknum og uppskáru mark á 10. mínútu þegar Jóhann Örn skoraði laglegt mark eftir ljómandi gott spil.
Sveinn Elías Elíasson svaraði fyrir Þór á 27. mínútu og þremur mínútum síðar urðu kaflaskil í leiknum þegar dómari leiksins, Jan Eric, gaf Hauki Hinrikssyni rautt spjald fyrir brot á Sveini Elíasi á miðjum vellinum. Fram að þessu atviki höfðu KA-menn verið síst lakari aðilinn í leiknum.

Fyrir þá sem hafa gaman af sagnfræði má geta þess að þetta er þriðja árið í röð sem leikmaður í KA 2 er rekinn út af í fyrri hálfleik gegn Þór 1 í þessu móti. Í fyrra var það Ólafur Magnússon, markvörður, og árið 2010 Garðar Sigurgeirsson.

Janez Vrenko bætti við öðru marki fyrir Þór undir lok hálfleiksins með skalla.

Á 66. mínútu var Kristján Sigurólason í Þór rekinn útaf fyrir glórulausa tveggja fóta tæklingu á Árna Arnar Sæmundsson. Þórsarar hresstust við þetta og Orri Hjaltalín bætti við þriðja markinu. Undir lok leiksins skoraði Kristinn Þór Rósbergsson fjórða markið og þar við sat.

Ásgeir Vincent Ívarsson kom inn á í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik komu inn á allir hinir varamennirnir; Árni Arnar Sæmundsson, Þórarinn Stefánsson, Aron Pétursson, Friðþjófur Alex Friðþjófsson og Aron Ingi Steingrímsson. Fimm síðastnefndu piltarnir eru allir fæddir 1995 - á yngsta ári í 2. flokki.  Þrír aðrir leikmenn úr þessum árgangi - Fannar Hafsteinsson, Bjarni Mark Antonsson og Benený Sigurðsson - voru í byrjunarliðinu í dag. Sem sagt; átta '95 strákar komu við sögu í leiknum í dag.