Leikurinn byrjaði af miklum krafti og ekkert var gefið eftir. Ljóst var að leikmenn beggja liða ætluðu að berjast eins og ljón í leiknum. Þórsarar byrjuðu betur og fengu upplagt færi á 7. mínútu þegar Baldvin Þór Rúnarsson bakvörður Þórsara átti gott upphlaup, komst inn í teig og átti gott skot á fjærstöng sem stefndi í netið en sóknarmaður Þórs sem var rangstæður náði að pota boltanum yfir línuna. Á 20. mínútu fengu Þórsarar aukaspyrnu rétt utan teigs en skotið var vel varið af Agli Sigfússyni í marki KA. Á 31. mínútu átti Kristján Freyr Óðinsson gott skot að marki Þórsara sem Ari Már Egilsson varði vel. Stuttu síðar átti Þórarinn Stefánsson gott skot sem Ari varði glæsilega. Á 33. mínútu fengu Þórsarar vítaspyrnu eftir að Egill markvörður KA-manna felldi Þórsara innan teigs.
Ingólfur Árnason tók spyrnuna og skoraði með skoti út við stöng en litlu mátti muna að Egill næði að verja skotið. Á 37. mínútu tók Aksjentije Milisic aukaspyrnu og sendi hættulegan bolta inn á teiginn en Þórsarar náðu að bjarga á seinustu stundu. Þórsarar skoruðu svo á markamínútunni en þá átti Ingólfur góða sendingu inn á Bergvin Gíslason sem náði góðu skoti í fjærhornið.
Staðan í leikhléi 0-2.
Seinni hálfleikur hófst með mikilli baráttu beggja liða og óskynsamlegum brotum. Á 58. mínútu komust fjórir KA-menn í gegnum vörnina hjá Þór og Ævar Ingi Jóhannesson fékk upplagt færi en hitti boltann illa og skaut framhjá.
Á 60. mínútu misstu Þórsarar leikmann af velli þegar Rúnar Freyr Þórhallsson fékk seinna gula spjaldið og þar með rautt. Á 83. mínútu sendi Ævar góða sendingu inn á Jóhann Örn Sigurjónsson sem skaut yfir úr upplögðu færi. Á 83. mínútu fékk Freyr Baldursson, leikmaður KA, beint rautt fyrir seina tæklingu. Á 88. mínútu komust Þórsarar í ágæta sókn sem endaði með góðu skoti Sigmars Bjarna Sigurðssonar sem Egill markvörður KA manna varði útvið stöng. Lítið gerðist eftir þetta og leiktíminn fjaraði út. Þór2 endaði því í 7. sætinu og KA2 í því áttunda.
Umfjöllun: Knattspyrnudómarafélag Norðurlands/Valdimar Pálsson.