Leikurinn í kvöld bauð upp allt sem prýðir góðan fótboltaleik, hraða, fullt af færum og baráttu á báða bóga. Að ekki sé minnst á góða markvörslu hjá báðum liðum. Þegar á heildina er litið var þetta einn af skemmtilegri leikjum sem hafa verið spilaðir á Akureyrarvelli í sumar.
KA-strákar byrjuðu leikinn betur og skoruðu fljótlega mark. Nokkrum mínútum síðar var einn af KA-strákunum rekinn í sturtu eftir að hafa togað í skyrtu leikmanns KF/Tindastóls þegar hann var að sleppa í gegn. Það var því á brattann að sækja fyrir KA, en liðið stóð af sér snarpar sóknarlotur gestanna og Fannar Hafsteinsson sýndi frábæra markvörslu hvað eftir annað. Hann varði meðal annars vítaspyrnu mjög vel.
KA-strákar héldu forystunni þar til um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum er gestirnir jöfnuðu metin með góðum skalla. Leikurinn var því framlengdur um tvisvar 10 mínútur og fjaraði framlengingin út án teljandi færa. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit. KF/Tindastóll skoraði úr fyrstu spyrnunni og markmaður þeirra varði síðan fyrstu spyrnu KA. Gestirnir því komnir í 2-1. Þá var komið að Fannars þætti Hafsteinssonar. Hann gerði sér lítið fyrir og varði næstu þrjár spyrnur KF/Tindastóls en KA-strákarnir skoruðu hins vegar úr næstu þremur spyrnum. Úrslitin því ráðin - 4-2.
KA-strákarnir eiga heiður skilinn fyrir mikla baráttu allan leikinn. Þeir misstu mann af velli strax á 15. mínútu og því var á brattann að sækja. En þeir trúðu á verkefnið og baráttan skilaði sér að lokum með þessum góða sigri í vítaspyrnukeppni. Allt liðið spilaði vel en á engan er hallað þó Fannars Hafsteinssonar markvarðar sé sérstaklega getið. Hann varði hvað eftir annað stórkostlega í markinu, þrátt fyrir að vera meiddur, og kórónaði síðan góðan leik með því að verja þrjár vítaspyrnur í lokin.