Árið 1991 endurtók KA leikinn frá árinu 1988 og vann sigur á N1 mótinu sem þá hét Esso-mótið. Að vísu gerðu KA strákarnir enn betur því bæði vannst sigur í keppni A-liða og D-liða og var þetta því annar sigur KA á mótinu sem fyrst fór fram sumarið 1987. Þjálfari strákanna var Jóhannes Gunnar Bjarnason.
Alls kepptu 35 lið á mótinu sem var þá það stærsta í sögunni. Í dag keppa hinsvegar yfir 200 lið á mótinu og virðist stækkun mótsins engan enda ætla að taka. Fyrsta helgin í júlí, þegar N1 mót KA fer fram, hefur einmitt verið stærsta ferðahelgi ársins á Akureyri undanfarin ár.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá sigurlið KA í flokki A-liða.
Efri röð frá vinstri: Jóhannes Gunnar Bjarnason þjálfari, Hafþór Einarsson, Hlynur Erlingsson, Jóhann Hermannsson, Heimir Örn Árnason og Atli Sveinn Þórarinsson.
Neðri röð frá vinstri: Jóhann Traustason, Sigurður Guðmundsson, Hans Hreinsson, Axel Árnason, Eiríkur Karl Ólafsson og Þórir Sigmundsson.
En eins og fyrr segir voru KA-menn sigursælir á mótinu 1991 en ekki nóg með að vinna sigur í keppni A og D liða þá urðu B og C lið félagsins í 3. og 4. sæti í sínum keppnum. Gunnar Kárason var formaður unglingaráðs KA á þessum tíma og var hann hæstánægður með mótið. Framkvæmdin hafi gengið vel, menn voru heppnir með veður en skemmtilegast væri góður árangur KA á mótinu, ekki síst í A-liðum.
Heimir Örn á fullri ferð í úrslitaleiknum gegn Víkingi
Strákarnir í A-liðinu léku til úrslita gegn liði Víking og sigruðu 1-0 í spennandi leik. Það var Heimir Örn Árnason sem skoraði sigurmarkið úr þröngri stöðu og var vel fagnað af félögum sínum og fjölmörgum áhorfendum sem fylgdust með. Áður höfðu strákarnir unnið 3-1 sigur á Stjörnunni í undanúrslitunum.
Í keppni B-liða lagði KA Víking 2-0 í leiknum um þriðja sætið. C-lið KA þurfti hinsvegar að sætta sig við 0-3 tap gegn FH í leik sínum um þriðja sætið. Í keppni D-liða var keppt í fimm liða riðli og þar hlutu KA-menn flest stig og hömpuðu því bikarnum.
Axel Árnason fyrirliði KA og Heimir Örn sem skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum
"Mér líður mjög vel og það var rosalega gaman að skora sigurmarkið," sagði Heimir Örn Árnason, leikmaður með A-liði KA, sem skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum gegn Víkingi.
"Ég fékk boltann á kantinum og sá að enginn var inn í og skaut því bara á markið. Þetta var ekkert sérstakt færi og sennilega var ég svolítið heppinn að skora. Mér hefur gengið ágætlega að skora í sumar, er búinn að gera 10 mörk. Það var auðvitað frábært að vinna mótið og auðvitað erum við með besta liðið" sagði Heimir Örn.
"Mér líður alveg rosalega vel. Ég átti von á sigri í úrslitaleiknum enda ætluðum við að vinna allan tímann," sagði Axel Árnason, markvörður og fyrirliði sigurliðs KA.
"Ég myndi segja að sigurinn í úrslitaleiknum hafi verið sanngjarn. Þeir pressuðu reyndar svolítið í lokin en það var bara eðlilegt. Við vorum með besta liðið í þessu móti en vorum samt svolítið heppnir. Við unnum til dæmis riðilinn okkar á markatölu," sagði Axel Árnason.