Í hádeginu var dregið til undanúrslita í Borgunarbikarnum en í pottinum voru ásamt okkar liði þau KR, Valur og ÍBV. Eins og alltaf í bikarnum vonast liðin helst eftir heimaleik og þar duttum við í lukkupottinn, við fáum Valsmenn í heimsókn til okkar á Akureyrarvöll.
Leikirnir eiga að vera leiknir 29. júlí og 30. júlí sem eru miðvikudagur og fimmtudagur fyrir Verslunarmannahelgi.
KA er á góðu skriði í bikarnum og hefur nú slegið út tvö lið úr Pepsi deildinni (Breiðablik og Fjölnir) og ættu því ekki að hræðast lið Valsmanna sem er að gera góða hluti í Pepsi deildinni. KA hefur ekki komist í undanúrslit síðan árið 2004 þegar KA fór alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar gegn Keflavík. Besti árangur síðan þá var 8-liða úrslit (2006 og 2010).
Þessi lið mættust í einhverjum frægasta bikarúrslitaleik Íslandssögunnar árið 1992 þegar KA var 7 sekúndum frá því að tryggja sér titilinn en varð á endanum að lúta lægra haldi eftir framlengingu, svipmyndir úr þeim leik má sjá hér fyrir neðan.
Leikur liðanna síðar í mánuðinum verður einungis annar leikur liðanna í bikarkeppninni frá úrslitaleiknum fræga. Liðin mættust í 16-liða úrslitum þann 6. júlí 2009 þar sem Valsmenn sigruðu 3-2 eftir framlengingu en sigurmarkið kom á 117. mínútu. Mörk KA skoruðu þeir Dávid Disztl og Andri Fannar Stefánsson.
Við getum því reiknað með því að leikur liðanna fari í framlengingu!