KA gerði góða ferð í Víkina í síðasta leiknum fyrir verslunarmannahelgi og hafði 1-0 sigur á Víkingi R. Núna er því að duga eða drepast fyrir okkar menn að fylgja þeim sigri eftir gegn Fjölni, sem vermir nú annað sæti deildarinnar með 25 stig, þremur stigum á eftir Ólafsvíkurvíkingum. KA er hins vegar í 5. sæti með 19 stig - með fimm sigra, fjögur jafntefli og fimm tapleiki. KA tapaði 1-3 fyrir Fjölni í fyrri leik liðanna í Grafarvogi 2. júní sl.
Sigrar KA í sumar hafa unnist á Þór (h), Víkingi Ólafsvík (ú), Víkingi Reykjavík (ú), ÍR (h) og Leikni (ú). Sem sagt; þrír útisigrar og tveir sigurleikir heima.
KA hefur gert fjögur jafntefli á heimavelli; við Hauka, Víking R, Tindastól og Bí/Bolungarvík.
Þá hefur liðið tapað fyrir Leikni (h), Þrótti R (ú), Hetti (ú), ÍR (ú) og Fjölni (ú).