KA gerir nýjan samning við Brian Gilmour

Brian Thomas Gilmour á fullri ferð á Akureyrarvelli sl. sumar. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.
Brian Thomas Gilmour á fullri ferð á Akureyrarvelli sl. sumar. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.

KA hefur gert nýjan eins árs samning við skoska miðjumanninn Brian Thomas Gilmour, en hann kom til KA í félagaskiptaglugganum í júlí sl. og spilaði átta leiki með félaginu út tímabilið.

Brian Gilmour er fæddur 1987 og er því 24 ára gamall. Knattspyrnuferilinn hóf hann hjá hinu þekkta liði Glasgow Rangers og síðan hefur hann spilað með skosku liðunum Clyde, Queen of the South og Stenhousemuir, enska liðinu Lincoln City og finnska liðinu FC Haka, en með því liði spilaði Gilmour m.a. í Evrópukeppninni gegn danska liðinu Bröndby keppnistímabilið 2008-2009. Gilmour hefur einnig spilað með landsliðum Skotlands U-19 og U-20.

„Ég er gríðarlega ánægður með að KA hafi náð að framlengja samning við Brian út næsta tímabil. Hann kom með allt aðra vídd í okkar leik seinnipart sumars og það var mjög gaman að sjá hvaða áhrif hann hafði á strákana í liðinu. Þegar við fórum að ræða við Brian um að vera á næsta tímabili kom það þægilega á óvart hve ánægður hann var hjá félaginu og hve mikla áherslu hann lagði á að spila með liðinu á næsta ári.  Það var því forgangsatriði að klára samning við hann sem tókst og það verður mjög gott fyrir liðið að fá hann inn í undirbúningstímabilið,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA.  

Brian Gilmour er hæstánægður með að vera búinn að gera nýjan samning við KA.  „Ég valdi að koma aftur til KA af þeirri einföldu ástæðu að ég vil taka þátt í því að koma liðinu aftur á þann stað sem ég tel að það eigi að vera. Ég vil leggja mitt af mörkum í þágu KA og miðla af reynslu minni til yngri leikmanna liðsins. Mér líst mjög vel á félagið; stjórnina, þjálfarateymið og leikmennina og ég er viss um að í sameiningu getum við tekið næsta skref fyrir félagið.“
- Hefurðu ákveðnar væntingar til næsta tímabils?
„Það er ekkert launungarmál að ég tel að KA eigi að gera atlögu að því að komast upp í Pepsídeildina strax næsta sumar og ég get ekki séð af hverju við ættum ekki að vera í þeirri stöðu – ef allir verða samstíga – bæði félagið og leikmennirnir.“
- Eitthvað sem kom þér sérstaklega á óvart hér síðastliðið sumar?
„Já, að veðurguðirnir skyldu ekki alltaf vera í vondu skapi! Nei, svona í alvöru, þá kannski komu vellirnir mér svolítið á óvart, enda er ég vissulega vanur því að spila á betri völlum. En þegar upp er staðið skipta vallaraðstæðurnar ekki máli. Aðalmálið er að ná í þrjú stig í öllum leikjum!“
- Nú er ljóst að næsta sumar verða aftur alvöru nágrannaviðureignir í fótboltanum á Akureyri. Hvernig leggjast þær í þig?
„Bara mjög vel. Ég hef í gegnum tíðina tekið þátt í nokkrum slíkum leikjum og þeir eru alltaf öðruvísi en aðrir leikir og það er alveg sérstök tilfinning að vinna þá. Vonandi getum við staðið uppréttir eftir þessa leiki næsta sumar og gefið stuðningsmönnum okkar færi á því að ganga hnarreistir um bæinn.“
- Eitthvað að lokum til stuðningsmanna KA?
„Já, bara það að ég vona að þeir styðji dygglega við bakið á liðinu allt næsta keppnistímabil og vonandi getum við sagt þegar við horfum til baka næsta haust að við höfum sem félag náð okkar markmiðum. Ég vil einnig undirstrika að við erum með marga unga leikmenn í okkar röðum sem ég bið stuðningsmenn um að sýna þolinmæði og styðja vel í baráttunni rétt eins og við eldri og reyndari leikmenn í liðinu munum gera. Áfram KA!“