KA - ÍR á Akureyrarvelli laugardaginn 21. júlí

Næsti leikur mfl. KA verður á Akureyrarvelli nk. laugardag kl. 16 þegar Breiðholtsliðið ÍR kemur í heimsókn. Þetta er fyrsti leikur síðari umferðar 1. deildar karla og því er mótið hálfnað. KA er í sjöunda sæti með 13 stig en ÍR-ingar eru í því sjötta með 14 stig.

KA-menn sóttu ekki gull í greipar ÍR-inga í fyrstu umferðinni í maí sl. og töpuðu 3-2. Gengi Breiðhyltinga hefur verið brokkgengt í fyrri umferðinni rétt eins og hjá KA - en þeir unnu góðan sigur á grönnum sínum í Leikni í síðustu umferð.

KA tekur síðan á móti Leikni í annarri umferðinni föstudaginn 27. júlí kl. 18.30, en upphaflega átti að spila þann leik daginn áður, fimmtudaginn 26. júlí. Mótanefnd KSÍ ákvað að seinka leiknum um einn dag vegna Evrópuleiks Þórs á fimmtudaginn í næstu viku.