KA - Leiknir: Viðtöl við leikmenn beggja liða

Halldór Kristinn með boltann
Halldór Kristinn með boltann
Leikur KA gegn Leikni vekur mikla athygli, og nú þegar er ljóst, að nokkur fjöldi stuðningsmanna Leiknis mun fylgja liðinu norður yfir heiðar.  Nokkuð hefur verið spurt útí leiktímann en hann er til kominn vegna þess að gestir okkar keyra hingað og vissulega munur um það hvort þú þarft að leggja af stað kl 06 eða 07.  Ósk Leiknismanna var því samþykkt af okkur sem þekkjum  kosti þess og reyndar ókosti líka að keyra í útileiki.

Hvað um það,  nokkuð heyrist í umræðu að KA fari nú ekki að gera Þór þann greiða að leggja á sig mikið til þess að vinna Leikni !  Þessi umræða er móðgandi, það er ljóst að leikmenn KA ætla ekki að horfa uppá leikmenn Leiknis fagna sigri á Akureyrarvelli. 

Slíkt kemur einfaldlega ekki til mála, eða eins og segir í kvæðinu góða ,,Við viljum sigur í þessum leik”.

Heimasíðu lék forvitni á að vita hvernig hljóðið væri í herbúðum Leiknismanna, sló því á þennan víðfræga þráð og náði sambandi við Halldór Kristinn fyrirliða Leiknis. 
Halldór sem er 22 ára hefur leikið 131 leik fyrir félagið og skorað 5 mörk.  Halldór er límið í varnarlínu gesta okkar.
 
Fyrsta spurning ótrúlega klassísk eða hvernig leggst leikurinn í þig Halldór?
Þessi leikur leggst mjög vel í mig, það gætu stórir hlutir verið að gerast í Breiðholtinu og við ætlum að láta þá gerast.  Við vitum að það fæst ekkert gefins og erum tilbúnir.
Okkur hefur ekki gengið sérstaklega vel á Akureyri undan farin ár en unnum þó góðan sigur á KA í fyrra og höfum hug á að endurtaka það.

Hvernig leik reiknar þú með?
Ef ég þekki Dean Martin og hans menn rétt verður þetta barátta, barátta,  og aftur barátta.   Þeir eru ekkert að fara að gefa okkur eitt eða neitt.  Hver tækling, hver skallabolti þetta verður barátta.
Við reiknum svo sannarlega ekki með neinum gjöfum á Akureyrarvelli.

Hvernig er ástand leikmanna Leiknis?
Það er gott þakka þér, það eru allir eru tilbúnir í ÞENNAN leik, allir vilja spila.

Má búast við fjölda stuðningsmanna ykkar á leikinn? 
Með velgengni okkar í sumar hefur mikið bæst við þann góða kjarna stuðningsmanna sem við áttum fyrir.   Ég reikna með því að stuðningsmenn okkar verði fjölmennir og  láti vel í sér heyra.  Hef m.a heyrt um fulla rútu sem fer norður.

Heimasíðan þakkar Halldóri fyrir spjallið og óskar honum góðs gengis í öllum leikjum nema gegn okkur auðvitað.

Pikkari www.ka-sport.is/fotbolti rakst svo á Andra Fannar og auðvitað notaði pikkari sér tækifærið og lagði fyrir kappann nokkrar spurningar.

Andri hvernig leggst leikurinn  gegn Leikni í þig ?
Leikurinn leggst vel í mig, það er gott tækifæri á laugardaginn að sýna og sanna bæði fyrir öðrum og okkur sjálfum  að við erum ekkert slakari en þessi lið sem eru að berjast um að komast upp um deild.

Hvernig leik reiknar þú með?
Ég reikna með erfiðum leik, Leiknismönnum bráðvantar þrjú stig í toppbaráttunni og við erum að spila upp á stoltið svo það er allt til staðar til að leikurinn geti orðið bráðfjörugur og skemmtilegur.

Þið ætlið ekkert að gefa Leiknismönnum eitt eða neitt ?
Nei það er ekki stefnan að sjá þá fagna á okkar velli, við ætlum að fagna þremur stigum fyrir framan okkar stuðningsmenn sem verða vonandi fjölmennir.

Hvernig er ástand leikmanna  KA?
Staðan á hópnum er ágæt, Gummi Óli hefur verið að stíga upp úr meiðslum en annars eru allir klárir í slaginn.

Stuðningur og áhugi fyrir liðinu er að aukast, finnið þið fyrir því inná vellinum?
Klárlega, Óli Pálss. og Hlynur hafa verið að vinna gríðarlega gott starf með upphitunum hjá stuðningsmönnum og fleiru. Stemningin er búin að aukast á heimaleikjum og núna er líka eitthvað farið að gerast á útileikjunum sem er bara frábært, leikmennirnir finna fyrir þessu og það hjálpar.

Vil í lok þessarar fréttar minna KA fólk á að það verður mikið um á vera fyrir okkur á morgun eins og fram hefur komið,  fjölmargir  leikir og svo auðvitað Fjölskylduhátíðin.  
Það er óhætt að segja að heimsókn á KA svæðin er fyrir KA fólk svipað og ferð kaþólikka til Páfagarðs þ.e nauðsynleg.
Látum sjá okkur í gulu og bláu enda einstaklega flottir litir saman.

Áfram KA.