Það er ekki bara meistaraflokkslið KA í knattspyrnu sem tekur þátt í evrópuverkefni í sumar en KA varð Íslandsmeistari í 2. flokki karla í fyrra sem tryggði strákunum keppnisrétt í evrópukeppni unglingaliða í flokki U19.
Nú hefur verið dregið og fengu strákarnir áhugaverðan andstæðing er þeir mæta liði FS Jelgava frá Lettlandi. Fyrri leikurinn fer fram í Lettlandi þann 17. september næstkomandi en síðari leikurinn fer fram á Greifavellinum þann 1. október.
Eðlilega hefur verið mikil eftirvænting hjá strákunum fyrir þessu verkefni og verður gaman að sjá hvernig þeim tekst til gegn liði Jelgava. Liðið sem fer áfram í 2. umferð mætir þar stórliði PAOK frá Grikklandi.