KA mætir HK í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins

Úr leik liðanna síðasta haust.
Úr leik liðanna síðasta haust.
Nú rétt í þessu var dregið í 32-liða úrslit VISA-bikarsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal. KA-menn voru í pottinum og drógust gegn HK og ljóst að það verður hörkuleikur en liðin eru saman í deild einnig í sumar. KA kom sem fyrra lið úr pottinum og því fer leikurinn fram á Akureyri.

KA-menn komu inn í 2. umferð og unnu Draupni en núna í 32-liða úrslitunum komu svo liðin í Pepsi-deild líka inn í pottinn ásamt liðunum sem höfðu unnið sig í gegn um forkeppnina.

Síðasta sumar unnu strákarnir Aftureldingu í 32-liða úrslitum en duttu síðan út í 16-liða úrslitunum gegn Val á Hlíðarenda eftir framlengingu í hörkuleik.

Sumarið 2001 fóru KA-menn alla leið í úrslitaleik bikarsins en töpuðu þar naumlega fyrir Fylki í vítaspyrnukeppni. Árið eftir töpuðu KA-menn 3-2 fyrir Fylkismönnum í undanúrslitum. 2003 töpuðu þeir svo aftur í undanúrslitum en þá gegn Skagamönnum. 2004 fóru þeir svo aftur alla leið í úrslitin en þá lutu þeir í gras gegn Keflvíkingum.

Leikirnir fara fram miðvikudaginn 2. júní og fimmtudaginn 3. júní. Ekki er búið að raða á hvorum deginum leikurinn hjá KA verður.

KA á svo leik gegn HK á laugardeginum 5. júní í deildinni hér heima en sá leikur gæti þó færst aftur á sunnudag. Þrátt fyrir það þá leika liðin tvo leiki í röð hér á Akureyri á innan við viku.