KA-menn drógust gegn úrvalsdeildarliði Vals í bikarnum

Úr leik liðanna í vor
Úr leik liðanna í vor
Í gærdag var dregið í 16-liða úrslit VISA-bikarsins í höfuðstöðvum KSÍ. Skemmst er frá því að segja að KA-menn munu fara á Vodafonevöllinn á Hlíðarenda og mæta Val í 16-liða úrslitunum.
Okkar menn lögðu Aftureldingu örugglega að velli 3-1 í 32-liða úrslitunum en Valsarar kláruðu Álftanes á heimavelli, 3-0.

Valur eru í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar en þessi lið mættust í vor og þar fóru Valsmenn með 3-0 sigur af hólmi svo það verður augljóslega á brattann að sækja hjá KA-mönnum.

,,Þetta er náttúrulega ekki draumadráttur það verður að segjast en virkilega gaman að fá alvöru leik gegn úrvalsdeildarliði.”

,,Hefði viljað fá heimaleik en möguleikarnir eru alltaf til staðar í bikarnum, það hefur sýnt sig í gegnum tíðina.”

,,Þetta er bara leikur sem við förum í til að vinna þar sem við ætlum okkur auðvitað sem lengst í bikarnum. Við erum enn taplausir í sumar og stefnum að því að halda því áfram,"
sagði Arnar Már fyrirliði í samtali við heimasíðuna þegar ljóst var að KA-myndi mæta Valsmönnum.

Leikurinn fer fram sunnudaginn 5. júlí kl. 16:00.