Á morgun, föstudag, taka KA-menn á móti Selfossi á Akureyrarvelli. Spáð er draumaveðri til knattspyrnuiðkunar, 13 stiga hita, 3 metrum norð/austan og skýjuðu = ENGIN AFSÖKUN FYRIR AÐ MÆTA EKKI!
Leikurinn hefst klukkan 18:15 og ALLIR VERÐA ÞAR!
KA hefur hrokkið í gírinn í síðustu leikjum og ekki tapað í 4 leikjum í röð og unnið síðustu 3. Ljóst að tilkoma Túfa og Brian Gilmore í liðið hefur haft heilmikið að segja og svo er Guðmundur Óli aftur kominn í liðið eftir meiðsli. Samkvæmt heimildarmanni hafa menn verið svolítið lemstraðir þessa vikuna og nokkrir æft lítið vegna meiðsla, en fastlega er búist við því að flestir verði klárir á morgun.
Með sigri getur KA fikrað sig nær toppnum og verið þá aðeins 3 stigum frá 4.sæti. En ljóst er að þeir leikir sem eftir eru, eru ekkert grín og því verður að styðja liðið áfram!
Selfoss er í harðri toppbaráttu og situr í 2. sæti deildarinnar. Þeir urðu fyrir áfalli í vikunni þegar Auðunn Helgason meiddist illa og spilar líklega ekki meira. Þeir hafa misstigið sig illa í síðustu tveim leikjum og fengið aðeins 1 stig. En það er ljóst að þeir eru ekkert lamb að leika sér við.
Fyrri leikur liðanna var KA mönnum dýr, 3-0 tap og Andrés Vilhjálmsson sleit krossband og datt úr leik ásamt því að Guðmundur Óli meiddist og er rétt aftur kominn til baka.
Liðin hafa átta sinnum mæst og hefur KA ekki ennþá tapað fyrir Selfyssingum á heimvelli í þeim tveimur leikjum sem liðin hafa spilað hér.
Þrátt fyrir tár mætir Doktorinn að sjálfsögðu á völlinn ásamt ÞÉR og ÞÍNUM!! Leikurinn hefst klukkan 18:15 og við sjáumst þar!