KA - Selfoss Laugardagur kl 15:00

úr leik KA og Selfoss 2009
úr leik KA og Selfoss 2009
KA heldur á morgun suður fyrir heiðar, nánar tiltekið til Akraness. Þar munu taka á móti okkur liðsmenn Loga Ólafssonar í Selfossi, leikurinn fer fram í frystikistu Íslands, Akraneshöllinni og verður flautaður á klukkan 15:00 og eru allir KA menn með boðsmiða að vanda.

Leikmenn halda áfram að snúa úr meiðslum og eru nánast allir heilir að undanskildum Srdjan Tufegzic eða Túfa sem verður frá í u.þ.b. 3 vikur í viðbót. “Nú er orðið verulega erfitt að velja í hóp og það er mjög jákvætt. Nú er komin alvöru samkeppni um flestar stöður og það gefur okkur ýmsa möguleika,” sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari, þegar síðan náði í skottið á honum.

Þetta er fjórði leikurinn í Lengjubikarnum þetta árið, KA eru enn stigalausir eftir töp gegn Gróttu, ÍA og Breiðabliki. Síðasti leikur var gegn Blikum og tapaðist hann 3-0 en Gunnlaugur býst við jafnari leik og ætlar sér sigur “Ef að líkum lætur mun þetta verða jafnari leikur en gegn Breiðabliki. Við munum spila til sigurs gegn Selfossi. Við munum halda áfram að bæta varnarleik okkar og við erum komnir með fjölbreyttari vopn í sóknarleiknum.  Selfoss var að tilkynna nýjan leikmann í dag, Joe Tillen, sem er hörkuleikmaður og þetta verður hörkuleikur,” sagði Gulli aðspurður út í leikinn

Nýir menn hafa verið að koma inn í liðið og ber þar hæst þrjá leikmenn sem komu að láni frá FH og Breiðabliki. Að sögn Gulla munu þeir koma til með að æfa hjá sínum félagsliðum þennan mánuðinn en stefnt er að fá þá norður daginn fyrir leikinn gegn Þór og láta þá æfa með hópnum.

Þá er KA með Bandaríkjamanninn Daniel Howell á reynslu og er hann með leikheimild í leiknum og líst Gunnlaugi vel á piltinn. “Mér líst vel á hann, hann hefur komið mjög vel út úr þessum tveimur æfingum sem hann náði í vikunni. Þetta er spennandi leikmaður, með góða boltameðferð og virðist hafa fínan leikskilning. Auk þess er hann hörkuskallamaður en hann er aðeins eftir á í formi. Við eigum eftir að kynnast honum betur en hann lofar góðu.”

Það hefur gengið upp og ofan hjá Selfyssingum á undirbúningstímabilinu. Í síðasta leik í Lengjubikarnum sýndu þeir þó góða takta og unnu óvæntan sigur á ÍA og eru því með 3 stig í riðlinum.

Samkvæmt heimasíðu Selfoss er lykilmaðurinn Sævar Þór Gíslason  handarbrotinn og verður ekki með á morgun.

Samkvæmt vef KSÍ hafa liðin mæst 6 sinnum og er nánast jafnt á öllum tölum. KA hefur unnið tvisvar, Selfoss tvisvar og sömuleiðis hafa hafa liðin skilið jöfn í tvígang. KA hefur skorað 11 mörk gegn 10 mörkum Selfyssinga. Síðast mættust liðin fyrir rúmu ári í Akraneshöll þegar Selfoss sigraði 1-0 í Lengjubikarnum. Líkt og í fyrra mun Halldór Breiðfjörð Jóhannsson vera á flautu og honum til aðstoðar verða þau Birkir Sigurðsson og Rúna Kristín Stefánsdóttir

Leikurinn hefst sem fyrr segir klukkan 15 og er allir sem tök hafa á hvattir til að mæta

ÁFRAM KA!!!!!!!!