KA-sérþjálfun gengur afar vel

Mjög góð reynsla hefur fengist af því verkefni sem kallað hefur verið “KA-sérþjálfun” og yngriflokkastarf KA í knattspyrnu stendur fyrir. Fyrsti vísir að þessu verkefni var sumarið 2007 þegar efnt var til morgunæfinga fyrir nokkra valda stráka í 3. og 4. aldursflokki. Æfingarnar voru viðbót við hefðbundnar æfingar í viðkomandi flokkum. Árangurinn af þessum æfingum var mjög góður og ákvað yngriflokkaráð að þróa þær áfram.

Síðastliðið sumar stóð yngriflokkaráð fyrir knattspyrnuskóla Grétars Rafns Steinssonar á KA-svæðinum, sem var opinn krökkum frá eldra ári í sjötta flokki og upp í þriðja flokk. Knattspyrnuskólinn var fyrir alla krakka á Akureyri og Norðurlandi sem vildu fá nýja og aukna þekkingu í knattspyrnu.

Óhætt er að segja að árangurinn hafi verið einstaklega góður og var mikil og almenn ánægja þátttakenda og foreldra með þetta verkefni.

Á vegum “KA-séræfinga” var sl. sumar einnig boðið upp á morgunæfingar fyrir alla krakka sem áhuga höfðu, í 5., 4. og 3. flokki karla og kvenna. Srdjan Tufegdzig sá um þessar æfingar. Og í vetur höfum við boðið öllum krökkum í 4. og 3. flokki karla og kvenna upp á styrktaræfingar í erobikksal KA-heimilisins, sem hefur verið mikil ánægja með. Dean Martin hefur séð um þessar æfingar. Bæði morgunæfingarnar sl. sumar og styrktarþjálfunin í vetur, hefur verið án endurgjalds - þ.e. ekki hefur bæst við kostnaður á iðkendur vegna þessa umfram æfingagjöld.

Í sumar verður haldið áfram á þessari braut. Boðið verður upp á morgunæfingar fyrir alla krakka í 5., 4. og 3. flokki og er þess vænst að iðkendur nýti sér þessa viðbótarþjálfun. Staðreyndin er sú að aukaæfingarnar skapa meistarana og það höfum við margítrekað séð. Útfærsla þessara morgunæfinga liggur ekki alveg endanlega fyrir, en frá henni verður greint á heimasíðu yngri flokka KA þegar hún verður ljós.

Arna Alfreðsdóttir hefur lagt “KA-sérþjálfun” lið með fjárstuðningi og kann yngriflokkastarf KA í knattspyrnu henni miklar og góðar þakkir fyrir. Arna segist mjög ánægð með öflugt starf yngri flokka KA. Faglega sé staðið að málum og þessi viðbótarþjálfun sé krökkunum afar dýrmæt. Mikilvægt sé að halda áfram á sömu braut og stefna alltaf fram á við.

Myndir: Úr knattspyrnuskóla Grétars Rafns í sumar.