KA sigraði Kjarnafæðismótið í fótbolta!

Hallgrímur Mar Steingrímsson með bikarinn. Mynd: Þórir Tryggvason.
Hallgrímur Mar Steingrímsson með bikarinn. Mynd: Þórir Tryggvason.
KA-menn höfðu 3-1 sigur á grönnum okkar í Þór í Kjarnafæðismótinu í fótbolta í Boganum í kvöld. KA komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum Gunnars Örvars Stefánssonar og Hallgríms Mars Steingrímssonar (víti). Í síðari hálfleik minnkuðu Þórsarar muninn með skallamarki Jóhanns Helga Hannessonar en Hallgrímur Mar gerði út um leikinn með öðru marki sínu fyrir KA undir lok leiksins.  Fyrri hálfleikur var mjög vel spilaður af hálfu KA-manna og voru þeir mjög óheppnir að vera ekki með meiri forystu í hálfleik. Þórsarar misstu Ármann Pétur Ævarsson út af undir lok fyrri hálfleiks með rautt spjald þegar hann felldi Bjarka Baldvinsson þegar hann var kominn einn í gegn. 
Þrátt fyrir að vera einum manni færri í síðari hálfleik bættu Þórsarar í sóknina og uppskáru mark, en Hallgrímur Mar gerði ákefð þeirra að engu með þriðja markinu. 
Margt jákvætt sást í leik KA-manna í leiknum og ljóst að liðið er á réttri leið undir stjórn Bjarna Jóhannssonar og Srdjan Tufegdzic. Töluverð forföll voru í KA-liðinu í kvöld. Dalvíkingarnir Gunnar Már Magnússon og Bessi Víðisson eru báðir meiddir og það sama á við um Orra Gústafsson. Að ógleymdum Gunnari Val Gunnarssyni, sem þarf að hafa hægt um sig í nokkra mánuði eftir aðgerð á hásin. Og Atli Sveinn Þórarinsson, sem tók við fyrirliðabandinu þegar Gunnar Valur meiddist, var heldur ekki með í kvöld vegna veikinda.
Bretarnir í KA-liðinu komu báðir við sögu í leiknum í kvöld. Bakvörðurinn Darren Lough spilaði allan leikinn og stóð sig að vanda mjög vel. Brian Gilmour byrjaði einnig leikinn en fór útaf meiddur skömmu fyrir hálfleik. Í hans stað kom inn á nýi danski leikmaðurinn í liði KA, Mads Rosenberg, en hann hefur ekki náð sér að fullu eftir slæma flensu. 
Byrjunarliðið í kvöld var þannig skipað að í markinu var Sandor. Miðverðir voru Haukur Hinriksson og Gauti Gautason og bakverðir Ómar Friðriksson og Darren Lough. Á miðjunni voru Brian Gilmour, Davíð Rúnar Bjarnason og Bjarki Baldvinsson, á köntunum voru Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem jafnframt var fyrirliði í kvöld, og Ævar Ingi Jóhannesson og fremstur byrjaði Gunnar Örvar Stefánsson.

Í síðari hálfleik komu inn á Ívar Guðlaugur Ívarsson, Fannar Freyr Gíslason, Jakob Hafsteinsson og Kristján Freyr Óðinsson.

Þar með hefur KA 1 lokið öllum leikjum sínum í Kjarnafæðismótinu í ár, en KA 2 spilar við Þór 2 nk. sunnudag kl. 15.15 í Boganum.

Fyrsti leikur KA í Lengjubikarnum verður gegn úrvalsdeildarliði Breiðabliks í Fífunni í Kópavogi að rúmri viku liðinni, laugardaginn 16. febrúar, kl. 11.