KA - Silkeborg afhending miða og aðrar upplýsingar

Strákarnir náðu frábærum úrslitum í Silkeborg og ætla sér áfram í næstu umferð!
Strákarnir náðu frábærum úrslitum í Silkeborg og ætla sér áfram í næstu umferð!

KA tekur á móti Silkeborg í síðari leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar UEFA á fimmtudaginn (31. júlí) klukkan 18:00 á Greifavellinum. Athugið að það er uppselt á leikinn og því miður getum við ekki bætt við sætum eða selt í standandi hólf og verða því ekki fleiri miðar í sölu.

Athugið að miðar verða afhentir í persónu í KA-Heimilinu, ekki verður notast við rafræna miða á leiknum. Þeir heppnu sem náðu að tryggja sér miða geta sótt miðana sína í KA-Heimilinu frá kl. 15:00 í dag (mánudaginn 28. júlí). Sá sem keypti miðana þarf að sækja þá til að tryggja að miðarnir fari á réttan aðila.

Með hverjum miða fylgir armband og er mjög mikilvægt að þegar mætt er á leikinn sé fólk búið að koma armbandinu fyrir á hendinni og geti sýnt miðann í leiðinni. Þetta er gert til að tryggja að ekki komist fleiri inn á völlinn en UEFA hefur gefið leyfi fyrir.

Hver miði er merktur sérstöku sæti og er ekki í boði að færa sig til í stúkunni, búið verður að merkja öll sæti í stúkunni og þurfa gestir að setjast í það sæti sem er skráð á þeirra miða.

Leikurinn hefst kl. 18:00 á fimmtudaginn og opnar KA-svæðið kl. 16:15 fyrir þá gesti sem eru með miða. Á svæðinu verður hamborgarasala og drykkjasala auk sælgætis og fleira og hvetjum við fólk til að mæta tímanlega. Fyrir þá sem ekki eru með miða á leikinn að þá er hann sýndur beint á Sýn Sport.

Athugið að gæsla mun þurfa að skoða bakpoka og töskur sem áhorfendur taka með sér á völlinn.

Einhverjir gestir eru með sérstakan VIP miða og fylgir þeim sérstakt armband.

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi afhendingu miða eða tengdu VIP miðum skal hafa samband við agust@ka.is.

Annars hlökkum við gríðarlega til að taka á móti ykkur og finna stuðninginn er strákarnir reyna að tryggja sér sæti í næstu umferð, áfram KA!