KA spilar til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í A-liðum í 5. flokki kvenna!

Stelpurnar í A-liði KA í 5. flokki kvenna gerðu sér lítið fyrir í dag og tryggðu sér sæti í hreinum úrslitaleik við Val um Íslandsmeistaratitilinn. Ekki liggur endanlega fyrir hvenær úrslitaleikurinn fer fram.

Það var mikil spenna í lofti í morgun þegar KA-stelpur mættu Stjörnunni í þriðja og síðasta leiknum í undanúrslitum úrslitakeppni 5. flokks kvenna hér á KA-vellinum. KA-stelpur höfðu gert jafntefli gegn Víði og unnið Sindra en Stjarnan hafði unnið bæði Víði og Sindra og var því með pálmann í höndunum - jafntefli hefði því dugað Stjörnunni til þess að fara í úrslit. En KA-stelpur sýndu það frá fyrstu mínútu leiksins að þær voru mættar til þess að vinna leikinn og komast í úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn og það tókst þeim. Þær settu fyrsta markið í fyrri hálfleik undan töluverðum vindi og þannig var staðan í hálfleik - 1-0. Stelpurnar gáfu hraustlega í í seinni hálfleik og spiluðu frábærlega. Uppskeran var enda góð, þær skoruðu fjögur glæsileg mörk í seinni hálfleik og niðurstaðan var 5-0 sigur gegn Stjörnustelpum. Þar með eru okkar stelpur komnar í hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Tímasetning og staðsetning þess leiks liggur ekki ennþá fyrir.

Það var ekki minni spenna í B-liða keppninni. Rétt eins og í A-liða keppninni var staðan sú að um hreinan úrslitaleik var að ræða í dag milli KA og Stjörnunnar um að komast í úrslitaleikinn. Um hörkuleik var að ræða. Stjörnustelpur voru ágengari í fyrri hálfleik, en KA-stelpur komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og uppskáru frábært skallamark og staðan því orðin 1-0 og KA með pálmann í höndunum. Stjarnan jafnaði síðan leikinn þegar rúm mínúta var eftir af leiknum og þar með var það ljóst að til uppkasts þyrfti að koma - samkvæmt reglum KSÍ - um hvort liðið færi alla leið í úrslit. Hlutkesti var síðan kastað að leik loknum í KA-heimilinu - samkvæmt fyrirmælum KSÍ - og féll hlutkesti Stjörnunni í vil. Þar með er það ljóst að Stjarnan spilar til úrslita í B-liðum um Íslandsmeistaratitilinn í 5. flokki kvenna, en B-liðs stelpur í KA sitja eftir með sárt ennið. Þær geta hins vegar borið höfuðið hátt, enda voru þær svo ótrúlega stutt frá því að komast alla leið í úrslitin.

Þegar upp er staðið er ljóst að árangur 5. flokks kvenna hjá KA í þessu Íslandsmóti - óháð því hvernig úrslitaleikurinn í A-liðum fer - er frábær og er full ástæða til þess að óska stelpunum og þjálfurum þeirra - Túfa og Alla - innilega til hamingju með magnaðan árangur.