KA-menn sóttu ekki gull í greipar Skagamanna í Akraneshöllinni í dag í þriðja leik liðsins í Lengjubikarnum. Heimamenn höfðu
sigur 4-1. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði mark KA í síðari hálfleik.
Það verður að segjast eins og er að KA-liðið kom nokkuð laskað til leiks á Skaganum í dag. Elmar Dan, fyrirliði, er meiddur,
sömuleiðis Ómar Friðriksson, Jóhann Örn Sigurjónsson og Árni Arnar Sæmundsson. Ævar Ingi Jóhannesson var á
landsliðsæfingu U-17 landsliðsins í dag og Þórður Arnar Þórðarson var ekki á landinu. Þá er Viktor
Mikumpeti nýkominn af stað aftur eftir sex vikna þrálát meiðsli. Aðeins þrír útileikmenn voru á varamannabekknum í
dag, þar af Ingvar Már Gíslason, aðstoðarþjálfari KA, sem var til taks ef á þyrfti að halda. Srdjan Tufegdzic var þessara þriggja
útileikmanna á bekknum og kom hann inn á undir lok leiksins, en Túfa hefur átt við meiðsl að stríða í margar undanfarnar
vikur.
Liðið sem byrjaði í dag var þannig skipað: Sandor Matus, Gunnar Valur Gunnarsson, Haukur Hinriksson, Kristján Freyr Óðinsson, Jakob Hafsteinsson,
Brian Gilmour, Jóhann Helgason, Bjarki Baldvinsson, Guðmundur Óli Steingrímsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Davíð Rúnar Bjarnason.
Eftirfarandi umfjöllun um leikinn birtist á http://www.fotbolti.net/ í dag:
Bæði lið komu til leiks af nokkrum krafti og strax í byrjun fengu gestirnir gott marktækifæri þegar Jóhann Helgason átti gott skot úr
aukaspyrnu sem Árni Snær Ólafsson í marki ÍA varði vel. Eftir það héldu liðin boltanum ágætlega innan síns liðs
án þess að skapa sér mörg færi. Gary Martin fékk þó gott tækifæri þegar hann skallaði yfir markið eftir fyrirgjöf
frá Aroni Ými Péturssyni.
Skömmu síðar gerðu skagamenn þó nánast út um leikinn með frábærum leikkafla. Á 15. mínútu átti Arnar
Már Guðjónsson sendingu út á vinstri kantinn þar sem Gary Martin tók við boltanum. Hann lék með boltann út að endamörkum og
náði góðri fyrirgjöf inn í vítateig þar sem Mark Doninger kom aðvífandi og hamraði boltann í markið, óverjandi fyrir
Sandor Matus í marki KA.
ÍA hélt áfram að sækja af krafti og annað mark leiksins kom á 20. mínútu þegar Ólafur Valur Valdimarsson lék með
boltann upp allan vallarhelming KA uns hann náði góðu skoti af 25 metra færi í fjærhornið sem Sandor Matus náði ekki að bjarga
þó hann væri í boltanum.
Um miðjan hálfleikinn munaði minnstu að þriðja mark leiksins liti dagsins ljós en þá fékk Mark Doninger boltann rétt fyrir framan
vítateiginn og náði frábæru skoti sem stefndi efst í markhornið. Sandor Matus sýndi þá stórbrotna markvörslu þegar hann
náði til boltans á síðustu stundu og bjargaði í hornspyrnu.
Skömmu síðar átti KA góðan möguleika á að komast inn í leikinn á nýjan leik þegar Davíð Rúnar Bjarnason
átti góða rispu upp völlinn og náði mjög góðu skoti á mark ÍA. Boltinn lenti í þverslánni og varnarmenn ÍA
náðu að hreinsa frá á síðustu stundu.
Á 40. mínútu kom svo loks þriðja markið í leiknum þegar Andri Adolphsson lék með boltann frá kantinum inn í átt að
vítateig KA. Hann náði föstu skoti á markið sem Sandor Matus réði ekki við og boltinn endaði efst í markhorninu.
Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð enda heimamenn með mjög góða stöðu. Þannig var flautað til hálfleiks og ÍA með
þriggja marka forystu í mjög fjörugum fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst svo mjög rólega og ekkert markvert gerðist fyrr en á 54. mínútu þegar skagamenn fengu aukaspyrnu rétt fyrir
utan vítateig KA. Mark Doninger tók aukaspyrnuna sem fór í varnarmann og þaðan barst boltinn til Arons Ýmis Péturssonar. Hann náði
föstu skoti sem stefndi neðst í nærhornið en enn var Sandor Matus vel staðsettur og bjargaði með góðri markvörslu.
ÍA komst svo í 4-0 á 63. mínútu þegar brotið var á Andra Adolphssyni rétt fyrir utan vítateig gestanna. Jón Vilhelm
Ákason tók aukaspyrnuna og skoraði með hnitmiðuðu skoti yfir varnarveginn án þess að markvörður KA gæti rönd við reist.
Fátt markvert gerðist í leiknum eftir þetta nema að gestirnir náðu að klóra í bakkann með fínu marki á 72.
mínútu. Þá fékk Hallgrímur Mar Steingrímsson boltann við vítateig ÍA, lék á varnarmann og skaut föstu skoti
neðst í fjærhornið sem Árni Snær Ólafsson náði ekki að verja.
Leikurinn fjaraði fljótt út eftir mark KA. Heimamenn bökkuðu töluvert til baka á völlinn enda með örugga forystu og gestirnir frá Akureyri
voru aldrei mjög líklegir til að ógna vörn ÍA frekar. Undir lokin átti Jón Vilhelm Ákason síðustu markverðu sókn leiksins
þegar hann lék einn upp allan vallarhelming KA. Hann náði góðu skoti en Sandor Matus var enn eina ferðina réttur maður á réttum
stað og bjargaði með meistaralegri markvörslu.
Skömmu síðar var flautað til leiksloka og ÍA fagnaði öruggum og sanngjörnum 4-1 sigri á KA. Eftir leikinn eru skagamenn ósigraðir í
efsta sæti síns riðils í Lengjubikarnum með 9 stig líkt og Stjarnan en eiga einn leik til góða þar sem Garðbæingar hafa spilað
fjóra leiki . KA-menn eru um miðjan riðil með 3 stig og sigla nokkuð lygnan sjó þar.