KA tapaði hlutkesti enn og aftur!

Hlutkesti og KA eiga ekki samleið, það er margsannað og sannaðist enn einu sinni í dag þegar KA tapaði hlutkesti um laust sæti í undanúrslitum Íslandsmóts í 5. flokki drengja - A-liðum og sömuleiðis tapaði KA í dag hlutkesti um leikstað í undanúrslitum í 3. flokki karla.

KA tapaði hlutkesti á móti Stjörnunni í gær um sæti í hreinum úrslitaleik Íslandsmótsins í knattspyrnu í B-liðum 5. flokks kvenna og í dag var varpað hlutkesti milli þriggja liða um fjórða sætið í undanúrslitum 5. flokks karla. Þrjú lið voru í pottinum - KA, Þór og Fjölnir og voru Grafarvogsbúar í Fjölni hinir heppnu og fara áfram í undanúrslitin. KA og Þór sitja eftir með sárt ennið.

Því skal þó rækilega haldið til haga að þrátt fyrir að tapa hlutkesti í bæði 5. flokki kvenna B-liðum og 5. flokki karla A-liðum er árangur þessara liða í sumar hreint frábær. Hlutkesti réð því sem sagt að 5. kvenna B-lið spilaði ekki til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og því má fullyrða að liðið er í hópi þriggja bestu á landinu. Ekki slæmur árangur það! Og hvað 5. flokk karla varðar skal því einnig haldið til haga að þrátt fyrir að tapa þessu hlutkesti í dag er 5. flokkur KA einn af þeim allra bestu í landinu. Það sýna úrslitin í úrslitakeppninni um helgina og á þeim mótum sem flokkurinn hefur tekið þátt í í sumar - N1-mótinu og Olísmótinu á Selfossi.

Í C-deild 3. flokks karla spilar KA við Fjarðabyggð/Leikni í undanúrslitum nk. föstudag á Eskifjarðarvelli. Í dag var varpað hlutkesti um hvort þessi leikur yrði spilaður á Akureyri eða fyrir austan og féll hlutkesti Fjarðabyggð/Leikni í hag.