Eftir góðan útisigur gegn toppliði Víkings í Ólafsvík sl. föstudagskvöld er KA í 5.sæti deildarinnar og nú taka við heimaleikir og þeir eru okkur afar mikilvægir. Fyrst tökum við nk. þriðjudag, 17. júlí, kl. 18.15 á móti Vestfirðingunum í BÍ/Bolungarvík undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar. Þeim hefur vegnað vel að undanförnu eftir brokkgenga byrjun í mótinu. Á síðasta tímabili tapaði KA naumlega fyrir BÍ/Bolunagarvík fyrir vestan en vann síðan heimaleikinn.
Það sem af er móti hafa meiðsl herjað á okkar lið langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Fyrirliðinn Elmar Dan meiddist alvarlega og kemur ekki meira við sögu í sumar, Túfa á sömuleiðis við langvarandi meiðsl að stríða og það sama má segja um Þórð Arnar Þórðarson, Ómar Friðriks kom inn á í sínum fyrsta leik í mfl. í sumar í Ólafsvík eftir langvarandi og þrálát meiðsl og stóð sig vel og Jóhann Helgason rifbeinsbrotnaði í leiknum gegn Þór á Akureyrarvelli í deildarleik og fékk höfuðhögg gegn Grindavík í bikarleik. Hann er hins vegar smám saman að ná sér og kom inn á í leiknum gegn Víkingi Ólafsvík. Í leiknum í Ólafsvík fékk Ævar Ingi Jóhannesson slæmt höfuðhögg og var fluttur til nánanari skoðunar á sjúkrahúsið á Akranesi. Hann þarf einhvern tíma til þess að jafna sig á þessu höggi.
Með sama baráttuanda og vilja sem liðið sýndi svo glögglega í Ólafsvík er allt hægt. Eftir að hafa misst Ævar Inga af velli á fyrstu mínútum leiksins þjöppuðu menn sér saman og börðust allir sem einn. Og Sandor markvörður sýndi vel úr hverjuj hann er gerður þegar hann varði vítaspyrnu Ólsara í uppbótartíma. Með ódrrepandi baráttu okkar manna í hverjum leik er allt hægt!
Stuðningsmenn KA eru hér og nú hvattir til að fjölmenna á völlinn á þriðjudaginn og hvetja okkar menn til sigurs gegn gestunum að vestan. Nú skulum við allir sem einn sýna úr hverjiu við erum gerðir og hjálpa strákunum. Góður og hvetjandi stuðningur skiptir þá gríðarlegu máli!