KA tekur á móti Leikni á föstudag

KA tekur á móti Leikni R á Akureyrarvelli föstudaginn 27. júlí kl. 18.30 og eru allir KA-menn hvattir til að fjölmenna á leikinn og hvetja strákana.

KA spilaði mjög vel í síðasta leik gegn ÍR og uppskar 5-1 sigur. Leiknir tapaði hins vegar með sama mun í Breiðholtinu í síðustu umferð gegn Þór. KA sigraði fyrri leik liðanna í Breiðholtinu í sumar, en hins vegar tapaði KA heimaleiknum gegn Leikni á síðasta keppnistímabili 0-2.

Meiðslalistinn er sem fyrr langur hjá okkar liði. Ljóst er að bæði Elmar Dan og Þórður Arnar spila ekki meira í sumar vegna meiðsla og er þeim sendar bestu óskir um góðan bata. Þá hefur Túfa átt við langvarandi meiðsli að stríða og það sama má segja um Ómar Friðriksson. Hann kom reyndar við sögu í leikjunum við Víking Ólafsvík og Bí/Bolungarvík en meiddist aftur í síðarnefnda leiknum. Þá varð Ævar Ingi fyrir höfuðhöggi í leiknum í Ólafsvík og kom ekki við sögu í næstu tveimur leikjum. Þess er  þó vænst að hann geti aftur farið að æfa í þessari viku. Þá verður enski bakvörðurinn Darren Lough fjarri góðu gamni á föstudag því hann tekur þá út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda.