KA tók þrjú stig á Ásvöllum - stefnir í alvöru slag á Akureyrarvelli 15. september!

KA tók öll þrjú stigin úr viðureign sinni við Hauka á Ásvöllum í kvöld. Leiknum lauk með 0-2 sigri og skoruðu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóhann Helgason mörk KA í síðari hálfleik. Sem stendur er KA í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig, þremur stigum á eftir Víkingi Ólafsvík sem á leik við ÍR til góða á heimavelli á laugardaginn. Næsti leikur KA verður hins vegar við téða Ólafsvíkurvíkinga á Akureyrarvelli annan laugardag, 15. september. Með sigri í þeim leik tryggja Víkingar sæti sitt í efstu deild, en sigur KA myndi þýða að síðasta umferðin yrði athyglisverð, en þá sækir KA Bí/Bolungarvík heim.