KA sigraði Greifamótið í fótbolta í 3. flokki karla í Boganum um helgina í bæði A- og B-liðum. Í A-liðum sigraði KA Dalvík, Þór, Fjarðabyggð og Völsung og gerði jafntefli við KF og í B-liðum sigraði KA Völsung í stórskemmtilegum úrslitaleik með einu marki gegn engu.
Greifamótið gekk í alla staði mjög vel og vill yngriflokkastarf KA, sem stendur fyrir mótinu, þakka öllum þátttakendum fyrir þátttökuna. Dómurum og línuvörðum eru færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra góðu vinnu. Þá er foreldrum drengjanna í 3. flokki sömuleiðis þakkað af heilum hug fyrir þeirra hlut í framkvæmd mótsins. Án alls þessa sjálfboðaliðastarfs væri mót sem þetta óhugsandi. Síðast en ekki síst þökkum við þeim fyrirtækjum, með veitingahúsið Greifann í broddi fylkingar, sem leggja okkur lið við mótið fyrir þeirra hlut við mótshaldið.